Verðum að stoppa þennan sirkus

Vincent Gerard, landsliðsmarkvörður Frakka.
Vincent Gerard, landsliðsmarkvörður Frakka. AFP

Vincent Gerard, landsliðsmarkvörður Frakka í handknattleik, gagnrýnir mótafyrirkomulagið á heimsmeistaramótinu sem lauk í Herning í Danmörku í gær.

Liðin sem komust í undanúrslitin á mótinu, Danmörk, Noregur, Frakkland og Þýskaland, léku 10 leiki á 17 dögum og heltust margir leikmenn úr lestinni á mótinu vegna meiðsla sem má að einhverju leyti rekja til leikjaálagsins.

Aron Pálmarsson, Arnór Þór Gunnarsson, Nemanja Zelenovic (Serbíu), Daniel Sarmiento (Spáni), Dani Dujshebaev (Spáni), Cyril Dumoulin (Frakklandi) og Cedric Sorhaindo (Frakklandi) voru meðal þeirra leikmanna sem heltust úr leik vegna meiðsla.

Á heimsmeistaramótinu í Frakklandi fyrir tveimur árum var ekki keppt í milliriðlum eins og HM í Danmörku og Þýskalandi heldur var farið beint í 16-liða úrslitin eftir riðlakeppnina.

„Staðreyndin er sú að á HM í Frakklandi féllu Þýskaland og Danmörk úr leik í átta liða úrslitum og sjónvarpsstöðvarnar heimtuðu að fá fleiri leiki. Þar með ákvað Alþjóðahandknattleikssambandið að breyta mótafyrirkomulaginu. Nú verða leikmenn að standa saman og stoppa þetta. Það er nóg komið. Við erum ekki kjöt,“ sagði Gerard í viðtali við franska ríkisútvarpið.

Eins og áður hefur verið nefnt léku Frakkar tíu leiki á HM en á milli leikja þurftu þeir að spila í fjórum borgum, Berlín, Köln, Hamborg Herning.

„Við verðum að stoppa þennan sirkus og hætta að trúa því að leikmenn geti spilað tíu leiki á rúmum tveimur vikum og ferðast svo þegar menn eiga að fá hvíld. Vissulega er sjónvarpið mikilvægt en við þurfum líka að huga að heilsu leikmanna,“ sagði Gerard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert