Eigi skal gráta Björn bónda

Kári Kristján Kristjánsson í leik gegn Svíum á EM í …
Kári Kristján Kristjánsson í leik gegn Svíum á EM í janúar á síðasta ári. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Undirbúningur karlalandsliðs Íslands í handknattleik fyrir leikina tvo gegn Portúgal í undankeppni EM sem framundan eru á miðvikudaginn og sunnudaginn og svo HM í Egyptalandi sem hefst 13. janúar stendur nú yfir en liðið kom saman til æfingar í Víkinni í gær. Þar voru allir þeir tuttugu leikmenn sem skipa hópinn ásamt þjálfurum og starfsmönnum en þó er fyrirliðinn Aron Pálmarsson fjarri góðu gamni. Þær fregnir bárust á laugardaginn að Aron er úr leik vegna hnémeiðsla.

Hópurinn ferðast til Portúgal í dag en sú óvenjulega staða er uppi að þjóðirnar mætast þrisvar á níu dögum en þær mætast í fyrstu umferðinni á HM 14. janúar.

„Það er mjög spes að þurfa að taka sama mótherjann þrisvar í röð en við þurfum að negla þetta. Við munum allavega þekkja vel inn á Portúgalana þegar HM byrjar,“ sagði línumaðurinn Kári Kristján Kristjánsson í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu landsliðsins í Víkinni í gær. „Þetta er svona úrslitakeppnisstemning, leikur þrjú verður sennilega þannig að enginn á fleiri trix eftir í bókinni. Þetta verður spurning um að reyna að gera góðu hlutina betur og kítta í einhverjar sprungur, þetta verður eflaust mjög sérstakt.“

Að mæta sama andstæðingnum þrisvar í röð í þremur löndum er óvenjuleg staða en það er fleira óvenjulegt við undirbúning liðsins. Íslandsmótið hefur ekki verið í gangi síðan í byrjun október vegna kórónuveirunnar og segir Kári að það hafi óneitanlega áhrif á leikmenn hversu stopult handboltatímabilið hefur verið um allan heim í vetur.

„Auðvitað hefur það áhrif, varðandi leikform og annað. Ég, Björgvin og Magnús Óli höfum ekki spilað deildarleik í tvo og hálfan mánuð. Sum lið hafa farið í sóttkví og misst af umferðum, það er enginn rauður þráður í hvaða lið er efst í hvaða deild fyrir sig, sumir eru búnir með tíu leiki og aðrir fimmtán.“

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert