Draga sig úr keppni á HM

Jan Filip, landsliðsþjálfari Tékka, greindist með kórónuveiruna í síðustu viku.
Jan Filip, landsliðsþjálfari Tékka, greindist með kórónuveiruna í síðustu viku. Ljósmynd/@NDRSport

Tékkland hefur dregið sig úr keppni á heimsmeistaramóti karla í handknattleik sem fram fer í Egyptalandi og hefst á morgun.

Þetta kemur fram á heimasíðu tékkneska handknattleikssambandsins en kórónuveiran hefur gert Tékkum erfitt um vik.

17 af 21 leikmanni í HM-hóp tékkneska liðsins er smitaður af kórónuveirunni eða í sóttkví vegna hennar. Þá greindust báðir þjálfarar liðsins með veiruna í síðustu viku.

„Leikmennirnir eru gríðarlega vonsviknir enda vorum við á leið á heimsmeistaramótið í gær,“ sagði Daniel Kubes, fyrirliði liðsins, samtali við tékkneska miðilinn Onlajny.

„Svona er hins vegar staðan og það er því miður ekkert sem við getum gert í henni,“ bætti fyrirliðinn við.

Tékkar drógust í G-riðil keppninnar ásamt Egyptalandi, Svíþjóð og Síle og átti fyrsti leikur Tékka að 14. janúar gegn Svíþjóð í Kaíró.

Norður-Makedónía mun að öllum líkindum taka sæti Tékka á HM. IHF hefur staðfest að landinu hafi verið boðið að taka sæti á mótinu sem fyrsta varaþjóð. Næst á eftir á biðlistanum eru Sviss, Holland, Svartfjallaland, Úkraína og Serbía.

mbl.is