Flestir þjálfaranna á HM eru frá Íslandi og Spáni

Alfreð Gíslason er landsliðsþjálfari Þýskalands sem mætir Úrúgvæ í sínum …
Alfreð Gíslason er landsliðsþjálfari Þýskalands sem mætir Úrúgvæ í sínum fyrsta leik á föstudaginn. Ljósmynd/@DHB_Teams

Íslenskir og spænskir þjálfarar stjórna flestum liðum á heimsmeistaramóti karla í Egyptalandi sem hefst í Kaíró á morgun, miðvikudag, með upphafsleik Egypta og Sílebúa.

Liðin í lokakeppni HM eru 32 talsins, fleiri en nokkru sinni fyrr, en þeim hefur verið fjölgað úr 24 frá síðasta móti. Þjálfararnir eru 33 talsins en Tékkar mæta til leiks með tvo fyrrverandi landsliðsmenn sína, Jan Filip og Daniel Kubes, við stjórnvölinn. Af þessum 33 þjálfurum eru fjórir Íslendingar og fjórir Spánverjar en engin önnur þjóð á fleiri en tvo þjálfara á mótinu.

Tuttugu af þessum 32 landsliðum eru undir stjórn heimamanns eða heimamanna og því aðeins tólf sem eru með erlendan aðalþjálfara.

Alfreð einn sá reyndasti á HM

Alfreð Gíslason er í hópi reyndustu þjálfara mótsins en hann tók við þýska landsliðinu á síðasta ári eftir afar farsælan feril með þýsk félagslið allt frá árinu 1997. Hann þjálfaði íslenska landsliðið á árunum 2006 til 2008 og var hársbreidd frá því að koma því í undanúrslit á HM 2007.

Dagur Sigurðsson þjálfar lið Japans en hann hefur verið með liðið í fjögur ár, eða síðan hann hætti með þýska landsliðið eftir að hafa stýrt því til Evrópumeistaratitils í Póllandi og bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016.

Halldór Jóhann Sigfússon þjálfar lið Barein en hann tók við því í nóvember eftir að hafa áður þjálfað 19 ára og 21 árs landslið Persaflóaríkisins.

Guðmundur Þ. Guðmundsson er síðan fjórði íslenski þjálfarinn á mótinu en hann hefur stýrt íslenska liðinu frá 2018 og var áður með það 2001-2004 og 2008-2012. Guðmundur vann silfurverðlaun á ÓL í Peking 2008 og bronsverðlaun á EM í Austurríki 2010 sem landsliðsþjálfari Íslands og hreppti ólympíugull sem þjálfari Dana á ÓL í Ríó árið 2016.

Jordi Ribeira stýrir spænska liðinu en landar hans Valero Rivera, Manolo Cadenas og Roberto García þjálfa lið Katar, Argentínu og Egyptalands. Spænsku þjálfararnir fjórir á mótinu eru því með lið hver í sinni heimsálfu.

Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert