Án þjálfarans og síns besta leikmanns

Thiagus Petrus fagnar marki á síðasta heimsmeistaramóti.
Thiagus Petrus fagnar marki á síðasta heimsmeistaramóti. AFP

Brasilíumenn mæta laskaðir til leiks á heimsmeistaramót karla í handknattleik í Egyptalandi vegna kórónuveirusmita en bæði besti leikmaður liðsins og þjálfari þess urðu eftir í Portúgal þegar liðið hélt til Egyptalands í morgun.

Thiagus Petrus hefur verið í stóru hlutverki í liði Brasilíumanna, m.a. þegar þeir lögðu Ísland að velli á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi fyrir tveimur árum. Hann er samherji Arons Pálmarssonar hjá Barcelona.

Þjálfarinn Marcus Oliveira er einnig úr leik í bili en hann og Petrus urðu eftir í Portúgal, sem og einn markvarða brasilíska liðsins og fjórir starfsmenn þess.

Brasilíumenn mæta Spánverjum í sínum fyrsta leik á HM á föstudaginn og eru einnig í riðli með Póllandi og Túnis.

mbl.is