HM af stað í dag í skugga veirunnar

Aðalkeppnishöllin í Kaíró bíður þess að flautað verði til leiks …
Aðalkeppnishöllin í Kaíró bíður þess að flautað verði til leiks síðdegis í dag þegar Egyptaland og Síle leika upphafsleik mótsins. Ljósmynd/IHF

Óhætt er að segja að útbreiðsla kórónuveirunnar hafi haft gríðarleg áhrif á heimsmeistaramót karla í handknattleik sem hefst í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, í dag.

Tvær þjóðir neyddust í gær til þess að draga lið sín úr keppni á mótinu. Fyrst voru það Tékkar sem voru með alls sautján smit í sínum hópi þegar liðið átti að leggja af stað til Egyptalands.

Norður-Makedónía kemur í þeirra stað, tekur sæti Tékka í G-riðli og mætir Svíum í fyrstu umferðinni strax á morgun. Hin tvö liðin í þeim riðli eru einmitt Egyptaland og Síle sem hefja heimsmeistaramótið með opnunarleik í Kaíró í dag klukkan 17 að íslenskum tíma.

Í gærkvöld tilkynntu síðan Bandaríkjamenn að þeir kæmust ekki með sitt lið á HM eftir að átján smit komu upp í hópnum. Sviss var varaþjóð númer tvö og var boðið sæti bandaríska liðsins í gærkvöld. Þar með gæti Sviss orðið einn af mótherjum Íslands í milliriðlinum í Egyptalandi.

Erlingur næstur á listanum

Þá var lið Grænhöfðaeyja, sem keppir á HM í fyrsta sinn, í vandræðum í gær en eftir að sjö smit komu upp í leikmannahópnum þar sem liðið dvaldi í æfingabúðum í Portúgal var staða þess tvísýn í gærkvöld. Fari svo að Grænhöfðaeyingar komist ekki til Egyptalands, eða Sviss afþakki sætið, er komið að Erlingi Richardssyni og hans lærisveinum í landsliði Hollands sem var í þriðja sætinu á biðlistanum fyrir keppnina.

Stærsta mót sögunnar

Þetta kórónuveiruvesen hefur að vonum dregið athyglina frá mótinu sjálfu sem er það 27. í röðinni og það þriðja sem haldið er í Afríku. Egyptar voru áður mótshaldarar árið 1999 og árið 2005 var það haldið í Túnis.

Þá er um að ræða umfangsmesta heimsmeistaramót sögunnar í íþróttinni því í fyrsta skipti eru þátttökuþjóðirnar 32 talsins en þær hafa verið 24 allt frá því HM var haldið á Íslandi árið 1995.

Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert