Meta Ísland sem þrettánda sterkasta lið mótsins

Ísland mætir Portúgal í fyrsta leiknum á HM annað kvöld.
Ísland mætir Portúgal í fyrsta leiknum á HM annað kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland er með þrettánda besta liðið á heimsmeistaramóti karla í handbolta í Egyptalandi samkvæmt mati danska netmiðilsins hbold.dk.

Þetta mat ætlar hbold að uppfæra eftir hverja umferð mótsins og raða þá liðunum upp á nýtt eftir því hvernig mótið mun þróast.

Öll 32 liðin sem taka þátt í mótinu fá umsagnir og er raðað í sæti. „Ísland er án sinnar stærstu stjörnu, Arons Pálmarssonar, þannig að það verður erfitt fyrir liðið að komast í átta liða úrslitin,“ er umsögnin um lið Íslands.

Niðurröðunin gerir ráð fyrir að Portúgal vinni F-riðilinn á undan Íslandi, Alsír og Marokkó og verði síðan í öðru sæti á eftir Noregi í milliriðlinum. Portúgölum er þar með spáð sigri gegn Frökkum, sem þar með sitji eftir í þriðja sæti milliriðilsins og verði að sætta sig við níunda sætið á mótinu.

Portúgal, mótherji Íslands á morgun, fær þessa umsögn: „Portúgal þarf að vinna Ísland í fyrstu umferðinni og Frakkland í milliriðlinum til að komast í átta liða úrslit. Erfið leið en liðið hefur getuna til að ná svona langt.“

Styrkleikaröðun hbold lítur svona út í byrjun móts:

1 Króatía
2 Danmörk
3 Noregur
4 Spánn
5 Slóvenía
6 Þýskaland
7 Egyptaland
8 Portúgal
9 Frakkland
10 Ungverjaland
11 Hvíta-Rússland
12 Norður-Makedónía
13 Ísland
14 Argentína
15 Túnis
16 Katar
17 Sviss
18 Svíþjóð
19 Brasilía
20 Síle
21 Rússland
22 Barein
23 Alsír
24 Angóla
25 Austurríki
26 Pólland
27 Japan
28 Suður-Kórea
29 Marokkó
30 Úrúgvæ
31 Kongó
32 Grænhöfðaeyjar

mbl.is