Öruggt í upphafsleiknum

Yehia Elderaa og Akram Saad fagna marki í Egyptalandi í …
Yehia Elderaa og Akram Saad fagna marki í Egyptalandi í dag. AFP

Egyptaland fer vel af stað á HM í handknattleik sem hófst í Egyptalandi í dag en liðið vann öruggan sex marka sigur gegn Síle í upphafleiks mótsins í Kaíró í dag.

Leiknum lauk með 35:29-sigri Egypta en þeir náðu frumkvæðinu snemma í leiknum og leiddu með sjö mörkum í hálfleik, 18:11.

Síle-menn náðu að klóra í bakkann í síðari hálfleik og minnka forskot Egypta niður í fimm stig.

Egyptar áttu hins vegar síðasta orðið og unnu þægilegan sex marka sigur í leikslok.

Yehia Elderaa var markahæstur í liði Egypta með sex mörk en Esteban Salinas var markahæstur í liði Síle með átta mörk.

Egyptaland er með 2 stig í G-riðli keppninnar en Síle er án stiga í neðsta sætinu. Svíþjóð og Norður-Makedónía eru hin tvö liðin og mætast á morgun. Norður-Makedónar tóku sæti Tékka á síðustu stundu.

mbl.is