Óttast að smitast af veirunni á HM: Grín hjá Egyptum

Sander Sagosen er í Egyptalandi með norska landsliðinu.
Sander Sagosen er í Egyptalandi með norska landsliðinu. AFP

Norðmaðurinn Sander Sagosen, einn besti handboltamaður heims, kveðst smeykur um að smitast af kórónuveirunni í Egyptalandi þar sem norska landsliðið býr sig undir að mæta Frökkum í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu á morgun.

Sagosen segir við VG í dag að sóttvarnaráðstafanir og annað sem þeim tengist sé hreint grín hjá egypsku gestgjöfunum.

„Þetta er satt best að segja eitt stórt grín. Planið sem hefur verið sett upp hérna heldur ekki vatni. Í gær urðu allir fyrir áfalli við að sjá aðstæðurnar sem boðið er uppá. Í dag hugsa menn sem svo að við getum ekkert við þessu gert. Okkur var boðið upp á að æfa á grasbala þar sem við gátum gert smá líkamsæfingar og spilað fótbolta. Við tökum hlutunum bara eins og þeir koma og ég ætla að reyna að nýta orkuna í það sem ég kom til að gera - spila eins góðan handbolta og mögulegt er," segir Sagosen.

Um sóttvarnirnar á hóteli norska liðsins segir hann: „Ég veit ekki hvort hægt sé að kalla þetta búbblu. Hér gengur fólk út og inn án þess að vera með grímur og liðin borða öll á sama stað. Það virðist ekki vera nein stjórn á neinu," segir Sagosen og viðurkennir að hann óttist að smitast á hótelinu.

„Við erum með okkar reglur fyrir hópinn. En annars er allt hér í frjálsu flæði eins og í villta vestrinu. Það er klárt að ég óttast að smitast af veirunni hérna í Egyptalandi. Við getum ekki gert annað en að krossa fingur," segir Sagosen.

Spurður hvort rétt sé að hætta við heimsmeistaramótið segir Sagosen: „Ég hugleiddi það ekki áður en ég kom hingað. Ég gerði mér góðar vonir um að allt myndi ganga vel, en eins og aðstæður eru hérna er vel hægt að velta þeirri spurningu upp. En þar sem ég er kominn hingað dreymir mig um að vinna gullverðlaun á heimsmeistaramóti. Það er hinsvegar ljóst að við þessar aðstæður hefði mótið ekki  farið fram í Noregi."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert