Voru reglur brotnar og þúsund manns á upphafsleiknum í Kaíró?

Hluti áhorfendanna sem Ekstra-Bladet fann í höllinni í Kaíró í …
Hluti áhorfendanna sem Ekstra-Bladet fann í höllinni í Kaíró í kvöld. AFP

Egypsku mótshaldararnir brutu reglur Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, strax í fyrsta leik heimsmeistaramótsins og hleyptu um þúsund manns inn á upphafsleik mótsins milli Egyptalands og Síle í kvöld.

Þetta fullyrðir Ekstra-Bladet í Danmörku og segir að augljóslega sé um brot að ræða en ákveðið var fyrir nokkrum dögum að engir áhorfendur yrðu á leikjum mótsins, af sóttvarnaástæðum. Egyptar höfðu fram að því ætlað að selja í 20 prósent sæta og vera með allt að þrjú þúsund manns á leikjunum.

Ekstra-Bladet segir að í VIP-stúkunni hafi forseti Egyptalands, Abdel Fatah al-Sisi, setið með um það bil eitt hundrað mikilvæga gesti í kringum sig, og í þeim hópi hafi verið margir sjeikar frá nágrannalöndunum á Arabíuskaganum. Þar hafi þess verið gætt að hafa nægilegt bil á milli einstaklinga.

En í áhorfendastúkunum hefði mátt sjá mörg hundruð manns sem ætti með réttu að vera hægt að kalla áhorfendur, að sögn Ekstra-Bladet, sem birti myndir af þessum hópum á skjáskotum úr upptökum af leik Egyptalands og Síle, máli sínu til stuðnings. Þar hafi hæglega verið hægt að telja alls um eitt þúsund manns. „Þetta er hneyksli,“ segir Ekstra-Bladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert