Aron í firnasterku liði fjarverandi leikmanna

Aron Pálmarsson er ekki með íslenska liðinu á HM og …
Aron Pálmarsson er ekki með íslenska liðinu á HM og margir aðrir lykilmenn liðanna eru fjarverandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hægt er að stilla upp afar sterku liði með þeim leikmönnum sem ekki taka þátt í heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Egyptalandi og í því á Ísland fulltrúa.

Bent Nyegaard, sérfræðingur TV2 í Danmörku og þjálfari Fram og ÍR á árum áður, er búinn að stilla upp úrvalsliði slíkra leikmanna og segir að það myndi hæglega geta spilað um verðlaun á mótinu.

Þar er Aron Pálmarsson meðal sjö leikmanna sem Nyegaard velur, sem og Svíarnir Niclas Ekberg og Mikael Applegren, Henrik Pekeler frá Þýskalandi, Magnus Rød frá Noregi, Rasmus Lauge frá Danmörku og Timur Dibirov frá Rússlandi.

Fimm þeirra, þar á meðal Aron, eru úr leik vegna meiðsla, Ekberg neitaði að fara á mótið vegna kórónuveirunnar og línu- og varnarmaðurinn öflugi Henrik Pekeler dró sig út úr þýska hópnum hjá Alfreð Gíslasyni af persónulegum ástæðum.

Nyegaard segir um Aron: „Það verður erfitt að fylla skarð Arons Pálmarssonar. Íslenska liðið hefði ekki getað misst betri leikmann. Hann lék frábærlega í undanúrslitum Meistaradeildarinnar með Barcelona og var mjög sannfærandi. Það er gríðarlega svekkjandi að hann skuli missa af mótinu og það verður dýrkeypt.“

Nyegaard segir að hann hefði hæglega getað valið frönsku stórskyttuna Nikola Karabatic í þetta sjö manna lið en Frakkinn er úr leik með slitið krossband. Nyegaard segir hins vegar að Rasmus Lauge sé einfaldlega betri leikmaður en Karabatic í dag.

Þá kveðst Nyegaard enn fremur hafa verið með í sigtinu þá Elohim Prandi frá Frakklandi, Nikola Bilyk og Janko Bozovic frá Austurríki, Casper Mortensen og Lasse Møller frá Danmörku og Albin Lagergren frá Svíþjóð. „Það komu margir til greina," segir Nyegaard.

Flestir bestu línumennirnir fjarverandi

Hann segir að það sé sérstaklega áberandi hve marga línumenn vanti á mótið. Jannik Kolhbacker og Patrick Wiencek séu ekki með Þjóðverjum, Andreas Nilsson ekki með Svíum, Magnus Gullerud ekki með Norðmönnum, Henrik Toft Hansen ekki með Dönum og Julen Aguinagalde ekki með Spánverjum.

„Þetta er nánast einstakt og við getum sagt að bestu fimm línumenn heims séu fjarverandi, að kannski undanskildum Ludovic Fábregas, en hann getur sem betur fer leikið með Frökkum. Hinir gera allir tilkall til að vera í hóp fimm bestu,“ segir Nyegaard enn fremur.

mbl.is