Ég er hundfúll

Elliði Snær Viðarsson í baráttunni á línunni í kvöld.
Elliði Snær Viðarsson í baráttunni á línunni í kvöld. Ljósmynd/IHF

„Ég er hundfúll með niðurstöðuna,“ sagði Elliði Snær Viðarsson landsliðsmaður í handbolta í samtali við mbl.is eftir 23:25-tap fyrir Portúgal í fyrsta leik Íslands á HM í Egyptalandi í kvöld.

„Varnarleikurinn var allt í lagi. Þeir skoruðu 25 mörk sem er allt í lagi, en samt var stundum of langt á milli manna. Þeir komu með tvöfaldar innleysingar sem við áttum erfitt með. Við vorum svo með allt of marga tapaða bolta í sókninni og við koðnuðum svolítið í sókninni eftir að við misstum þá fram úr okkur í seinni hálfleik.

Mér fannst fyrri hálfleikurinn vera mun jafnari, hann var stál í stál. Í seinni hálfleik vorum við að elta og þegar við gátum minnkað muninn í tvö mörk þá fóru færi forgörðum,“ sagði Elliði.

Leikurinn var sá fyrsti sem Eyjamaðurinn spilar á stórmóti. „Það er ótrúlega gaman en ég er svekktur með frammistöðuna að einhverju leyti. Ég hefði viljað standa mig betur í vörn og hefði viljað grípa fleiri bolta í sókninni. Þetta eru blendnar tilfinningar,“ sagði hann.

Ísland vann níu marka sigur á sama liði í undankeppni EM á sunnudaginn var. „Þeir voru mun opnari í vörninni á Ásvöllum og þá var pláss fyrir aftan þá sem við nýttum vel. Þeir voru þéttari í kvöld og við áttum erfiðara með þá. Það var stærsti munurinn. Þeir voru svo ekki eins mikið í sjö á sex í kvöld eins og á Ásvöllum.“

Ísland mætir Alsír í næsta leik á laugardaginn kemur. „Það eru væntanlega 3-4 myndbandsfundir fram undan. Við greinum okkar leik vel og svo förum við í að greina Alsír. Það er hörkulið og mikill hraði í sóknarleiknum hjá þeim. Það eru erfiðir tveir leikir eftir í þessum riðli. Við teljum hinsvegar að við eigum alltaf að vinna og okkur fannst við eiga að vinna í kvöld,“ sagði Elliði Snær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert