Hægt að breyta liðunum eftir hvern leik á HM

Kristján Örn Kristjánsson er einn þeirra fjögurra sem taka ekki …
Kristján Örn Kristjánsson er einn þeirra fjögurra sem taka ekki þátt í leiknum gegn Portúgal í kvöld. Hann gæti hinsvegar spilað gegn Alsír á laugardagskvöldið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slakað hefur verið á reglum um hlutgengi leikmanna á heimsmeistaramóti karla í handknattleik og nú má breyta liðunum að vild eftir hvern leik á mótinu í Egyptalandi.

Sextán leikmenn eru á leikskýrslu hverju sinni og tuttugu leikmenn skipa leikmannahópinn í heild sinni. Á leikdegi er sextán manna hópurinn hverju sinni tilkynntur. Þá mega liðin gera fimm breytingar á tuttugu manna hópi sínum hvenær sem er á meðan mótið stendur yfir.

Hingað til hafa reglur um breytingar á leikmannahópunum eftir að mótið hefst verið mjög strangar og ekki verið mikið svigrúm til að kalla inn nýja leikmenn.

Þeir fjórir leikmenn sem ekki taka þátt í leiknum gegn Portúgal í kvöld, Björgvin Páll Gústafsson, Kári Kristján Kristjánsson, Magnús Óli Magnússon og Kristján Örn Kristjánsson, geta því komið inn í hópinn strax í næsta leik gegn Alsír á laugardagskvöldið ef ástæða þykir til breytinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert