Jafnt í rússneska grannaslagnum

Hvít-Rússinn Artsiom Kulak reynir skot að marki Rússa í leiknum …
Hvít-Rússinn Artsiom Kulak reynir skot að marki Rússa í leiknum í dag. Ljósmynd/IHF

Hvítrússar og Rússar skildu jafnir, 32:32, í fyrsta leiknum í H-riðli heimsmeistaramóts karla í handknattleik í Egyptalandi í dag.

Leikurinn var hnífjafn allan tímann og staðan var 15:15 í hálfleik. Uladzislau Kulesh jafnaði fyrir Hvítrússa, 32:32, þegar hálf mínúta var eftir og markvörður þeirra varði síðan skot úr hægra horninu þremur sekúndum fyrir leikslok og tryggði stigið.

Kulesh var valinn maður leiksins en hann skoraði sex mörk fyrir Hvítrússa og átti fjölda stoðsendinga. Mikita Vailupau var markahæstur Hvítrússa með 10 mörk en Dmitrii Kiselev, Igor Soroka og Sergei Mark Kosorotov skoruðu 6 mörk hver fyrir Rússa.

Segja má þó að Rússar hafi frekar komið á óvart því hvítrússneska liðið þótti mun sigurstranglegra fyrir leikinn.

Slóvenía og Suður-Kórea eru einnig í H-riðli og þeirra leikur á að hefjast klukkan 17 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert