Tap í fyrsta leik á HM

Elvar Örn Jónsson skorar fyrir Ísland á upphafsmínútunum gegn Portúgal …
Elvar Örn Jónsson skorar fyrir Ísland á upphafsmínútunum gegn Portúgal í kvöld. AFP

Ísland mátti þola 23:25-tap fyrir Portúgal í fyrsta leik sínum á HM karla í handbolta í Egyptalandi í kvöld. Einu marki munaði á liðunum í fyrri hálfleik og tókst íslenska liðinu aldrei að jafna í seinni hálfleik.

Íslenska liðið byrjaði af krafti og komst í 2:0 í upphafi leiks og síðan 4:2. Portúgal beit frá sér og jafnaði í 5:5 og var staðan 6:6 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Portúgal komst yfir í fyrsta skipti í stöðunni 8:7 og komst í kjölfarið í 9:7. Einu marki munaði á liðunum í hálfleik og var staðan í leikhléi 11:10, Portúgal í vil.

Ísland gat vel við unað miðað við tvö varin skot á móti ellefu hinum megin. Ágúst Elí Björgvinsson náði sér engan veginn á strik í markinu framan af og varði ekki eitt einasta skot. Viktor Gísli Hallgrímsson náði sér ekki á strik þegar hann tók við af honum en varði þó tvö skot í lok hálfleiksins og þar af eitt víti.

Íslenska liði byrjaði vel í sóknarleiknum og Elvar Örn Jónsson stýrði leiknum ágætlega. Eftir því sem leið á í sókninni gekk hins vegar verr og hvað eftir annað kastaði íslenska liðið boltanum frá sér og Portúgal skoraði auðveld mörk hinum í kjölfarið. Varnarleikurinn hinum megin var sterkari og var helsta ástæða þess að munurinn í hálfleik var ekki stærri.

Portúgal náði fjögurra marka forskotið snemma í seinni hálfleik 15:11 og svo 18:13 og leit varnarleikurinn alls ekki vel út. Þá tók Guðmundur Guðmundsson leikhlé og þrjú íslensk mörk í röð fylgdu í kjölfarið, 18:16. Portúgal var áfram skrefi á undan næstu mínútur og var staðan 20:18 þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Þá kom góður kafli hjá Portúgal og var staðan 24:19 þegar skammt var eftir.

Ísland lagaði stöðuna aðeins í lokin en það dugði ekki til og Portúgal fagnaði sigri. Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu með sex mörk, Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fjögur og Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk.

Næsti leikur Íslands er gegn Alsír á laugardaginn kemur.

Portúgal 25:23 Ísland opna loka
60. mín. Ísland tekur leikhlé Guðmundur tekur leikhlé þegar 41 sekúnda er eftir. Hann vill aðeins laga stöðuna.
mbl.is