Þekkjum svarið við varnarleik Íslands

Gísli Þorgeir Kristjánsson í baráttu í leiknum við Portúgal á …
Gísli Þorgeir Kristjánsson í baráttu í leiknum við Portúgal á sunnudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Paulo Pereira, landsliðsþjálfari Portúgala, segir að hann muni koma íslenska liðinu á óvart í kvöld þegar keppni hefst í F-riðlinum á heimsmeistaramóti karla í Egyptalandi.

Viðureign Íslands og Portúgals hefst klukkan 19.30 en Alsír mætir Marokkó í fyrsta leik riðilsins klukkan 17.

Ísland vann Portúgal á Ásvöllum í undankeppni EM á sunnudaginn, 32:23, eftir að hafa tapað 26:24 í fyrri leiknum í Portúgal fjórum dögum áður. Leikurinn í kvöld hefur úrslitaáhrif á hvernig F-riðillinn mun enda og stigin eru afar dýrmæt enda munu þau að óbreyttu fylgja sigurliðinu í milliriðil keppninnar.

„Við þurfum að koma þeim á óvart með nokkrum atriðum í okkar leik, til viðbótar við þau sem við notum vanalega. Við vitum hvernig við getum svarað og brotið upp varnarleik íslenska liðsins. Íslendingar breyta jafnan ekki miklu í sínum leikstíl en gætu verið með eitthvað. Við verðum að vera sterkir frá byrjun, það hefur aðeins vantað taktinn í okkar leik en við höfum verið að leita að okkar bestu uppstillingu og vonumst eftir því að þetta gangi allt vel,“ sagði Pereira á heimasíðu portúgalska handknattleikssambandsins.

Fábio Magalhaes, reyndasti leikmaður portúgalska liðsins, segir að fyrstu 25 mínúturnar í leiknum á Íslandi hafi verið ótrúlega góðar. „En það sem við þurfum að laga eru síðustu fimm mínútur fyrri hálfleiks og seinni hálfleikurinn, og við þurfum að halda fullri einbeitingu allan tímann. Þetta er fyrsti leikur okkar allra í lokakeppni heimsmeistaramóts, en við lékum líka okkar fyrstu leiki í lokakeppni Evrópumótsins í fyrra og náðum frábærum árangri. Við erum því spenntir og getum ekki beðið eftir því að mæta Íslendingum,“ sagði Magalhaes.

mbl.is