Orðum ofaukið að tala um „búbblu“ í Egyptalandi

Christian Berge, þjálfari Norðmanna.
Christian Berge, þjálfari Norðmanna. AFP

Christian Berge, þjálfari norska karlalandsliðsins í handknattleik, er allt annað en sáttur með sóttvarnir í Egyptalandi þar sem HM 2021 fer fram þessa dagana.

Tvö lið hafa þurft að draga sig úr keppni vegna kórónuveirunnar og þá var greint frá því í gærdag að portúgalskur fjölmiðlamaður væri smitaður af veirunni, fjórir leikmenn Grænhöfðaeyja, tveir leikmenn Slóveníu og einn leikmaður Brasilíu.

Smitin greindust öll á landamærunum en lið Grænhöfðaeyja var mikið í umræðunni fyrir mót þar sem sex leikmenn liðsins, sem og þjálfarinn, voru allir smitaðir af veirunni.

Margir hafa gagnrýnt sóttvarnir á mótinu og bættist Berge í hóp þeirra á blaðamannafundi í gær.

„Það er orðum ofaukið að ætla tala um einhverja sérstaka „búbblu“ hérna í Egyptalandi,“ sagði Berge.

„Það er engin hólfaskipting og fólk valsar inn og út úr æfingahöllum og hótelum. Margir hverjir eru ekki einu sinni með grímur.

Þá borða landsliðin öll saman í matsalnum og á þeim sólahring sem við erum búnir að vera hérna hafa engar breytingar til batnaðar átt sér stað,“ bætti þjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert