Eiga ekki í lið á heimsmeistaramótinu

Ellefu leikmenn Grænhöfðaeyja töpuðu gegn Ungverjum í fyrsta leik.
Ellefu leikmenn Grænhöfðaeyja töpuðu gegn Ungverjum í fyrsta leik. AFP

Útlit er fyrir að Grænhöfðaeyjar eigi ekki í lið fyrir leik sinn gegn Þýskalandi á morgun á HM karla í handknattleik sem fram fer í Egyptalandi. Tveir leikmenn liðsins greindust með kórónuveiruna í dag en áður höfðu sex leikmenn sem og nokkrir úr starfsliðinu greinst með veiruna.

Alþjóðahandknattleikssambandið, IHF, greinir frá þessu á heimasíðu sinni en Grænhöfðaeyjar mættu til Egyptalands með 11 leikmenn og töpuðu 34:27 gegn Ungverjalandi í fyrsta leik sínum í riðlinum, sem jafnframt var fyrsti leikur þjóðarinnar í lokakeppni HM frá upphafi.

Á morgun á liðið að mæta lærisveinum Alfreðs Gíslasonar frá Þýskalandi en samkvæmt reglum IHF verða þjóðirnar að geta teflt fram tíu leikmönnum í hverjum leik á mótinu.

Sem stendur eru aðeins níu leikmenn Grænhöfðaeyja til taks og gæti því Þjóðverjum verið dæmdur 10:0-sigur. Óvíst er hvort hægt sé að kalla til nýja leikmenn með svo stuttum fyrirvara en leiknum hefur í það minnsta ekki verið formlega aflýst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert