Flott fyrir mig að komast inn í mótið svona

Björgvin Páll Gústavsson og félagar fagna góðum sigri í kvöld.
Björgvin Páll Gústavsson og félagar fagna góðum sigri í kvöld. AFP

„Ég er voðalega kátur,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson í samtali við mbl.is í kvöld. Björgvin átti góðan leik og varði 15 skot í 39:24-stórsigri Íslands gegn Alsír í HM í Egyptalandi. Með sigrinum fór Ísland langt með að tryggja sér annað sæti F-riðils.

„Við áttum góða kvöldstund í gær og unnum góðan sigur í kvöld. Við komum inn í leikinn af krafti og þegar við gerum það þá erum við í góðum málum. Við höfum lent í basli með þennan andstæðing áður á stórmóti og við vissum að við þurftum að vera klár í bátana og við vorum það og spiluðum vel allar 60 mínúturnar,“ sagði Björgvin sem var sáttur með eigin frammistöðu og frammistöðu varnarmannanna fyrir framan sig. 

„Við spiluðum frábæra vörn allan leikinn og það var flott fyrir mig að fá að komast inn í mótið svona. Ég hef nánast ekkert spilað handbolta síðustu ellefu mánuðina og það var gott að komast í gang. Strákarnir gerðu þetta auðvelt fyrir mig með því að berjast eins og ljón fyrir framan mig. Þegar við fáum svæði og okkur líður vel spilum við óaðfinnanlegan sóknarleik. Þetta voru skemmtilegar sóknir sem var gaman að horfa á.“

Íslenska liðið tapaði boltanum 15 sinnum með mistökum í leiknum gegn Portúgal en sóknarleikurinn í kvöld gekk gífurlega vel fyrir sig. 

„Það er ekki auðvelt, við vorum að spila á móti aggresívum leikmönnum sem eru óútreiknanlegir í vörn og sókn. Það sýnir okkur hvað við vorum einbeittir frá upphafi á móti þjóð sem er aggresív og blóðheit með mikil læti og hasar. Við sýndum hvað við getum verið góðir í handbolta.“

Síðasti leikur Íslands í riðlinum er gegn Marokkó á laugardaginn kemur. „Við þurfum að halda rétt á okkar spilum og hlaða orku. Við erum í rútínu og við þurfum að fara vel með okkur. Við ætlum að njóta þess að vera saman því þetta er það skemmtilegasta sem maður gerir með landsliðinu. Við mætum eldklárir í næsta leik,“ sagði Björgvin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert