Mikil handboltahefð hjá Alsírbúum

Alsírbúar fögnuðu sigri í fyrsta leiknum á HM á fimmtudaginn …
Alsírbúar fögnuðu sigri í fyrsta leiknum á HM á fimmtudaginn eftir að hafa verið undir nánast allan leikinn gegn nágrönnum sínum frá Marokkó. AFP

Alsírbúar, andstæðingar Íslendinga á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í kvöld, eru ein rótgrónasta Afríkuþjóðin í handboltanum og var lengi vel sú sigursælasta.

Alsír hafnaði í þriðja sæti á Afríkumótinu á síðasta ári, á eftir Egyptalandi og Túnis, en varð síðast Afríkumeistari árið 2014. Alsírbúar urðu Afríkumeistarar fimm sinnum í röð frá 1981 til 1989 en hafa aðeins unnið mótið tvisvar frá þeim tíma.

Alsír var með á fjórtán heimsmeistaramótum af sautján á árunum 1974 til 2015 og mætir nú til leiks á ný eftir að hafa misst af tveimur síðustu mótum.

Besta árangri sínum á HM náðu Alsírbúar í Frakklandi árið 2001 þegar þeir enduðu í þrettánda sæti af 24 liðum. Þá hafa þeir fjórum sinnum verið fulltrúi Afríku á Ólympíuleikum en ekki komist þangað frá árinu 1996.

Leikmenn liðsins spila nær allir með félagsliðum í heimalandi sínu en nokkrir leika með liðum í Katar.

Patrekur skoraði frá miðju

Ísland og Alsír hafa mæst tvisvar á þessari öld, Ísland vann 32:24 á HM í Katar árið 2015 og 34:25 á HM í Túnis árið 2005. Þar á undan gerðu liðin jafntefli, 27:27, á HM í Japan árið 1997 en það er eina stigið sem Alsír hefur náð gegn Íslandi í átta viðureignum þjóðanna frá árinu 1983. Patrekur Jóhannesson var þá sekúndubrotum frá því að tryggja Íslandi sigur með skoti frá miðju en leikurinn var flautaður af rétt áður en boltinn fór yfir marklínuna!

Alsírbúar lentu í óvæntum vandræðum með granna sína frá Marokkó í fyrstu umferðinni á fimmtudaginn og unnu naumlega, 24:23, eftir að hafa lent sjö mörkum undir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert