Stórmót ganga út á að koma snjóboltanum af stað

Ólafur Guðmundsson í leiknum gegn Alsír í kvöld.
Ólafur Guðmundsson í leiknum gegn Alsír í kvöld. Ljósmynd/IHF

„Þetta var mjög flottur leikur. Frá fyrstu mínútu og allt fram að þeirri síðustu vorum við að spila flottan handbolta,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson eftir 39:24-sigur Íslands á Alsír á HM í handbolta í Egyptalandi.

Ísland lék vel í vörn og sókn í leiknum og átti Alsír aldrei möguleika. „Við vorum að vinna okkar baráttu maður á mann á báðum endum vallarins og það er ekki auðvelt, sérstaklega í vörninni, að fá á sig mikið maður á mann.

Við gerðum þetta vel í 60 mínútur og það var góð einbeiting hjá okkur. Það er auðvelt að slaka á þegar forskotið er svona mikið en í dag var þetta einbeiting alla leið og það var ánægjulegt að sjá það.“

Ólafur var ekki viss hvort íslenska liðið hafi endilega búist við erfiðari leik. „Við runnum svolítið blint í sjóinn. Þetta er ekki lið sem við mætum oft og það erfitt að greina þetta lið. Þetta eru öðruvísi hreyfingar en við erum vanir og ólíkur handbolti. Við vissum ekki alveg hvað við vorum að fara út í. Við sýndum verkefninu virðingu og gerðum þetta á fullu allan tímann.“

Skyttan spilaði vel í dag, skoraði sex mörk og lagði sitt að mörkum. Hann viðurkennir að hafa viljað spila meira gegn Portúgal í fyrsta leik. „Bara eins og allir held ég. Ég er keppnismaður og vill fá að spila og vill fá að spila mikið. Ég held að allir í liðinu vilja það,“ sagði hann.

Ólafur vonast til að leikurinn í kvöld sé byrjunin á einhverju góðu hjá íslenska liðinu á mótinu „Stórmót ganga oft út á að koma snjóboltanum af stað og láta hann rúlla í rétta átt og byggja ofan á það. Þetta var gott skref eftir tapið á móti Portúgal. Nú þurfum við að halda áfram,“ sagði Ólafur Andrés.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert