Svíar áfram og Noregur mætir væntanlega Íslandi

Henrik Jakobsen línumaður Norðmanna í dauðafæri í leiknum gegn Sviss …
Henrik Jakobsen línumaður Norðmanna í dauðafæri í leiknum gegn Sviss í kvöld. AFP

Svíar eru komnir í milliriðlakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik eftir sinn annan sigur í tveimur leikjum í G-riðlinum í Egyptalandi í kvöld, og nánast öruggt er að Norðmenn mæta Íslendingum í milliriðli eftir sigur á Sviss í E-riðlinum.

Svíar voru ekki í vandræðum með Sílebúa og sigruðu þá með yfirburðum, 41:26, eftir að hafa verið yfir í hálfleik, 20:16. Svíþjóð og Egyptaland eru með 4 stig í G-riðlinum og bæði komin áfram en Síle og Norður-Makedónía eru án stiga og leika hreinan úrslitaleik um hvort þeirra kemst líka áfram.

Síle: Erwin Feuchtmann 7, Rodrigo Salinas 6, Esteban Salinas 4, Emil Feuchtmann 2, Benjamin Calleja 2, Javier Frelijj 2, Diego Reyes 1, Daniel Ayala 1, Sebastian Ceballos 1.

Svíþjóð: Lucas Pellas 12, Lukas Sandell 6, Daniel Pettersson 5, Jim Gottfridsson 4, Valter Chrintz 3, Jonathan Carlsbogard 3, Linus Persson 3, Felix Claar 3, Alfred Jonsson 1, Max Darj 1.

Norðmenn unnu öruggan sigur á Svisslendingum, 31:25, eftir að hafa verið 17:13 yfir í hálfleik. Frakkar eru með 4 stig og komnir áfram, Noregur og Sviss eru með 2 stig en Austurríki ekkert. Tvö þeirra munu fylgja Frökkum áfram og mæta Íslandi í milliriðlakeppninni í Egyptalandi.

Sander Sagosen skoraði ellefu mörk fyrir Norðmenn og er þegar kominn með 21 mark eftir tvo leiki á mótinu.

Sviss: Marvin Lier 7, Alen Milosevic 7, Lenny Rubin 4, Roman Sidorowicz 2, Cedrie Tynowski 2, Medhi Ben Romdhane 1, Samuel Zehnder 1, Andy Schmid 1.

Noregur: Sander Sagosen 11, Goran Sogard Johannessen 6, Harald Reinkind 5, Magnus Jondal 4, Bjarte Myrhol 2, Kristian Bjornsen 1, Christian O`Sullivan 1, Henrik Jakobsen 1.

mbl.is