Ekkert hægt að tala um að hvíla menn

Guðmundur Þ. Guðmundsson gefur fyrirskipanir í leiknum gegn Alsír í …
Guðmundur Þ. Guðmundsson gefur fyrirskipanir í leiknum gegn Alsír í gærkvöld. AFP

Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari í handknattleik sagði við mbl.is í dag að hann væri ekkert farinn að skoða andstæðingana í milliriðli heimsmeistaramótsins í Egyptalandi.

Þar leikur Ísland líklegast við Sviss á miðvikudag, Frakkland á föstudag og Noreg á sunnudag en Guðmundur sagði að öll sín einbeiting beindist að leiknum við Marokkó í lokaumferð F-riðilsins sem fer fram í Nýju höfuðborginni í Egyptalandi annað kvöld, mánudagskvöld, klukkan 19.30 en þar ræðst hvort Ísland fer með tvö stig eða ekkert í milliriðil keppninnar.

Guðmundur var afar ánægður með leikinn gegn Alsír í fyrrakvöld þar sem Ísland vann stórsigur, 39:24, þar sem Ísland skoraði úr 22 skotum af 23 í fyrri hálfleik og var þá þegar búið að gera út um leikinn með því að ná tólf marka forskoti.

Held að þetta hafi aldrei gerst áður

„Þessi fyrri hálfleikur fer nú nánast í sögubækurnar fyrir nýtingu og það allt saman. Ég man bara ekki eftir svona tölum og held að þetta hafi aldrei gerst áður,“ sagði Guðmundur við mbl.is.

„Við lögðum leikinn upp á ákveðinn hátt þar sem við bjuggum okkur undir að mæta andstæðingi sem spilar af mikilli ákefð bæði í vörn og sókn. Við reiknuðum með því að þeir kæmu mjög framarlega á völlinn í sínum varnarleik og reyndu að slá okkur út af laginu.

Í fyrsta lagi gekk varnarleikurinn algjörlega upp og markvarslan sömuleiðis. Það lagði grunninn að sigrinum. En síðan var sóknarleikurinn afskaplega vel útfærður og gekk sömuleiðis mjög, mjög vel. Bæði þegar þeir spiluðu framarlega á okkur og eins þegar þeir bökkuðu," sagði Guðmundur.

Íslensku leikmennirnir fagna eftir glæsilega frammistöðu gegn Alsír.
Íslensku leikmennirnir fagna eftir glæsilega frammistöðu gegn Alsír. AFP

Spila af enn meiri grimmd og krafti

Ég geri ráð fyrir að þú hafir byrjað að undirbúa leikinn gegn Marokkó strax í gærkvöld. Eigum við von á áþekkum andstæðingum í þeim leik, eða er einhver munur á leikstíl Alsírs og Marokkós?

„Marokkómenn eru mjög svipaðir og Alsír en ef eitthvað er þá spila þeir af enn meiri grimmd og krafti. Þeir hafa byrjað báða sína leiki í mótinu með því að spila vörnina mjög framarlega til þess að reyna að slá andstæðingana út af laginu. Þeir voru sex mörkum yfir í hálfleik gegn Alsír og náðu fimm marka forystu í fyrri hálfleik á móti Portúgal. Þannig hafa þeir byrjað leikina og þetta þurfum við að varast og vera tilbúnir í slaginn á móti þeim.

Þeir eru sýnd veiði en ekki gefin, og svo er staðan þannig hjá okkur að við verðum að vinna leikinn til þess að fara með stigin með okkur inn í milliriðilinn, sem er mjög mikils virði. Það er því allt undir í þessum leik og ekki hægt að slaka neitt á.

Það snýst líka um það að taka markatöluna og stigin úr leiknum við Alsír með okkur í milliriðilinn svo það eru margir fletir á þessu. Ef við töpum gegn Marokkó förum við áfram með ekkert stig. Þess vegna er þetta afar mikilvægur leikur og við búum okkur undir hann sem slíkan.“

Lið Marokkó byrjaði leikina gegn Alsír og Portúgal af gríðarlegum …
Lið Marokkó byrjaði leikina gegn Alsír og Portúgal af gríðarlegum krafti. AFP

Staðan erfiðari með því að missa Janus

Þú ert ekki með í huga að hvíla einhverja leikmenn fyrir milliriðlakeppnina?

„Nei, það er ekkert hægt að tala um að hvíla menn, við erum ekki með nein slík plön, og það yrði þá af öðrum ástæðum sem við myndum gera breytingar á liðinu fyrir leikinn á morgun.“

Í dag varð ljóst að miðjumaðurinn Janus Daði Smárason myndi ekki leika meira með íslenska landsliðinu á þessu heimsmeistaramóti vegna meiðsla og Guðmundur sagði að það væri talsvert áfall fyrir liðið.

„Janus er að fara heim, hann verður ekki meira með. Hann er illa haldinn, er með verk í öxl, sem hefur fylgt honum í vetur. Þetta hefur verið misslæmt, en nú er ástandið orðið þannig að hann getur ekki spilað. Við ætluðum að reyna að hvíla hann og sjá hvort þetta myndi lagast eitthvað og hugmyndin var sú að nota hann í milliriðli ef svo bæri við. Það var planið en þetta hefur ekkert skánað og niðurstaðan er sú að það sé ekki forsvarlegt að halda honum hér. Hann er kvalinn í öxlinni, á erfitt með svefn, og því miður er þetta svona. Ég býst við því að hann fari heim á þriðjudaginn.

Þetta gerir stöðu okkar miklu erfiðari, því miður. Þetta bætist við þá staðreynd að Aron Pálmarsson er meiddur, Haukur Þrastarson er meiddur, og þetta fækkar þeim leikmönnum sem við höfum í þessa stöðu. En nú þurfa aðrir að stíga inn í þetta hlutverk, við erum með Magnús Óla Magnússon hérna og Elvar Örn Jónsson getur leyst það líka.“

Mörg ljón á veginum

Kemur til greina að kalla nýjan leikmann inn í hópinn fyrst það er nú hægt hvenær sem er samkvæmt breyttum reglum mótsins?

„Við erum bara að skoða það en það er ekki hlaupið að því að komast hingað til Egyptalands og komast inn í þessa búbblu. Það eru bara mörg ljón á veginum þannig að við erum bara að skoða það."

Nú blasir við að ef allt fer sem horfir verði fyrsti leikur í milliriðlinum gegn Sviss á miðvikudagskvöldið. Ertu farinn að skoða þann leik?

„Já, við erum auðvitað byrjaðir að undirbúa það. Við erum með aðstoðarmenn sem eru byrjaðir að klippa leiki og safna upplýsingum um væntanlega andstæðinga í milliriðli. En fókusinn minn og leikmannanna er eingöngu á leiknum sem er fram undan við Marokkó. Ég er ekki búinn að skoða Sviss sjálfur, hef bara einbeitt mér að andstæðingum morgundagsins, og sama er að segja um leikmennina.“

En síðasta sumar, þegar til stóð að spila við Sviss um að komast í þessa lokakeppni, varstu þá farinn að skoða þeirra lið?

„Nei, ég var ekkert byrjaður á því, nema bara almennt. Ég hef hugmynd um hvernig þeir spila en vil ekkert ræða það á þessu stigi. Ég er með hugann við Marokkó og ekkert annað."

Elliði Snær Viðarsson skorar í leiknum gegn Alsír.
Elliði Snær Viðarsson skorar í leiknum gegn Alsír. AFP

Líður mjög vel og viljum helst ekki fara

Hvernig er aðbúnaðurinn hjá ykkur á mótinu og ertu sáttur við hvernig Egyptar standa sig í gestgjafahlutverkinu?

„Við höfum ekki yfir neinu að kvarta. Maturinn er fínn og hótelið er mjög gott. Þetta er mjög glæsilegt hótel og við erum með mjög góða fundaraðstöðu. Það væsir ekki um okkur hérna. Allt sem snýr að okkur hefur gengið algjörlega án vandræða. Auðvitað hafa Róbert og þeir í fararstjórninni þurft að glíma við sitthvað og leysa mál í skipulagningunni sem ég þarf ekki að koma nálægt. Það er fullt af vandamálum á þann hátt sem fylgir þessu.

Eflaust er eitt og annað sem mætti betur fara en hvað mig snertir og hvað liðið snertir þá er allt fyrsta flokks. Okkur líður mjög vel og viljum helst ekki fara á annað hótel, en við þurfum víst að færa okkur yfir í aðra borg ef við komumst í milliriðilinn. Við hefðum alveg viljað vera hér áfram,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert