Ég hefði frekar viljað spila leikinn

Alfreð Gíslason ræðir við sína menn í þýska landsliðinu á …
Alfreð Gíslason ræðir við sína menn í þýska landsliðinu á HM. AFP

Alfreð Gíslason þjálfari þýska karlalandsliðsins í handknattleik segir að hann hefði ekki viljað vera í fríi á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í gær en ekkert varð af fyrirhuguðum leik Þjóðverja gegn Grænhöfðaeyjum.

Lið Grænhöfðaeyja gat ekki mætt til leiks vegna kórónuveirusmita og Þýskaland fékk tvö stig og úrskurðaðan 10:0 sigur. Þar með var sæti í milliriðli í höfn hjá Alfreð og hans mönnum en þeir hefðu þó væntanlega ekki verið í vandræðum með að tryggja sér það ef leikurinn hefði farið fram.

„Ég hefði að sjálfsögðu frekar viljað spila leikinn en vinna hann svona. Við vissum nokkurn veginn í gær að leikurinn færi ekki fram en þó var ekki endanlega ákveðið fyrr en í dag, á leikdegi, að hann færi ekki fram,“ sagði Alfreð í ítarlegu viðtali sem birtist á Akureyri.net í dag.

Þýskaland mætir Ungverjalandi annað kvöld í lokaumferð A-riðils en þar verður mikið í húfi því liðin taka stigin úr þeim leik með sér í milliriðlakeppnina.

mbl.is