Missir af stórleiknum því hljóðhimnan sprakk

Diego Simonet stekkur upp í leik Argentínu og Kongó í …
Diego Simonet stekkur upp í leik Argentínu og Kongó í fyrstu umferðinni. AFP

Ein helsta stjarna argentínska karlalandsliðsins í handknattleik getur ekki spilað hinn þýðingarmikla leik þess gegn heimsmeisturum Dana á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi annað kvöld en ástæðurnar eru óvenjulegar.

Diego Simonet, sem er leikmaður franska liðsins Montpellier, hefur verið í lykilhlutverki hjá Argentínu sem hefur unnið tvo fyrstu leiki sína, gegn Kongó og Barein, og er með fjögur stig í D-riðlinum eins og Danmörk. Liðin taka því stigin úr leiknum með sér í milliriðil keppinnar.

Simonet varð nefnilega fyrir því óláni í leik liðsins við Halldór Jóhann Sigfússon og hans menn í Barein að hljóðhimnan á vinstra eyranu sprakk.

Samkvæmt TV2 í Danmörku segja læknar að það sé ekki verjandi að Simonet taki þátt í leiknum því þá gæti hann orðið fyrir varanlegum heyrnarskaða.

Nafnið Simonet verður þó á leikskýrslunni því tveir bræður hans, Pablo Simonet, sem leikur með Benidorm á Spáni, og Sebastián Simonet, sem leikur með Villa Ballester í Argentínu, eru í liði Argentínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert