Öruggur norskur sigur og leikir Íslands á hreinu

Sander Sagosen skorar fyrir Noreg gegn Austurríki í kvöld.
Sander Sagosen skorar fyrir Noreg gegn Austurríki í kvöld. AFP

Norðmenn unnu öruggan sigur á Austurríki í síðasta leiknum í E-riðli heimsmeistaramóts karla í Egyptalandi í kvöld og þar með verður leikjaröð íslenska liðsins í milliriðlinum á þann hátt sem útlit var fyrir.

Lokatölur urðu 38:29 fyrir Norðmenn sem völtuðu yfir andstæðinga sína í seinni hálfleik eftir að staðan í hálfleik var 20:17. Frakkar unnu því riðilinn með 6 stig, Norðmenn fengu 4 stig, Svisslendingar 2 og Austurríkismenn ekkert.

Frakkar fara áfram með fjögur stig, Norðmenn með tvö og Svisslendingar ekkert. Ísland mætir Sviss í fyrsta leiknum á miðvikudaginn, síðan Frakklandi á föstudaginn og loks Noregi á sunnudaginn. 

Milliriðillinn hefst því á þann veg að Portúgal og Frakkland eru með 4 stig, Ísland og Noregur 2 stig en Sviss og Alsír eru án stiga.

Sander Sagosen skoraði níu mörk fyrir Noreg í kvöld og hefur því gert 30 mörk í fyrstu leikjum norska liðsins.

Noregur: Sander Sagosen 9, Alexandre Christoffersen 7, Kent Robin Tonnesen 7, Christian O`Sullivan 5, Goran Sogard Johannessen 3, Kevin Maagero Gulliksen 3, Petter Overby 2, Thomas Solstad 1, Kristian Bjornsen 1.

Austurríki: Robert Weber 6, Tobias Wagner 6, Lukas Hutecek 4, Sebastian Frimmel 3, Lukas Herburger 2, Jakob Jochmann 2, Julian Ranftl 2, Nikola Stevanovic 2, Antonio Juric 1, Maximilian Hermann 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert