Sem betur fer fór þetta ekki verr

Viggó Kristjánsson átti góðan leik í kvöld.
Viggó Kristjánsson átti góðan leik í kvöld. AFP

„Þetta var fagmannlega spilað hjá okkur,“ sagði Viggó Kristjánsson sem var valinn maður leiksins fyrir frammistöðu sína í 31:23-sigri Íslands á Marokkó á HM í handbolta í Egyptalandi í kvöld. Eftir jafna byrjun tók Ísland völdin eftir um tíu mínútna leik. 

„Við vorum í smá brasi með þá til að byrja með en svo náðum við forystunni en við náðum ekki að slíta þá almennilega frá okkur fyrr en í lokin. Ég er ánægður með að við náðum að klára þetta án þess að hafa einhvern æsing í þessu,“ sagði Viggó. 

Nokkur marka Viggós voru keimlík þar sem hann plataði varnarmenn með sömu gabbhreyfingunni og skoraði. „Þetta gekk upp einu sinni þannig ég hélt því bara áfram en þegar þetta var búið að ganga upp fimm sinnum voru þeir aðeins farnir að læra á þetta en þá tók Gísli Þorgeir bara við hinum megin. Við sáum að við vorum líkamlega sterkari en þeir og vorum því alltaf að fara að vinna einn á einn stöður.“

Leikmenn Marokkó fengu þrjú rauð spjöld í leiknum fyrir þrjú mjög ljót brot. Það síðasta fékk Hicham Hakimi fyrir að ýta Viggó í loftinu af miklum krafti með þeim afleiðingum að Viggó lenti mjög illa á bakinu. 

„Ég kem á fullri ferð og fer upp í loftið, svo sé ég að höggið er að koma og ég næ að spenna aðeins á móti. Höggið kemur beint á þindina, þannig ég meiði mig ekki alveg jafn mikið en svo lendi ég flatur á bakinu en það var rosalega lítið sem hægt var að gera annað en að passa hausinn þegar maður lendir. Sem betur fer fór þetta ekki verr. Þetta var mjög spes og maður lendir aldrei í þessu í Þýskalandi að fá á sig svona viljandi brot. Þetta á ekki heima á vellinum.“

Með sigrinum tryggði Ísland sér sæti í milliriðli tvö þar sem liðið byrjar með tvö stig. Íslenska liðið mætir Noregi, Sviss og Frakklandi í erfiðum riðli. „Við viljum máta okkur við bestu liðin og Noregur og Frakkland eru á topp 5 í heiminum en að sama skapi er Sviss líka með sterkt lið og með marga leikmenn í Bundesligunni. Þetta er enn í okkar höndum ef við klárum okkar leiki og það er markmiðið,“ sagði Viggó. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert