Þetta á ekki að sjást í handbolta

Íslenska liðið fagnar góðum sigri í leikslok.
Íslenska liðið fagnar góðum sigri í leikslok. AFP

Elvar Örn Jónsson skoraði tvö mörk í 31:23-sigri Íslands á Marokkó á HM í handbolta í Egyptalandi í kvöld. Með sigrinum tryggði Ísland sér sæti í milliriðli og tekur liðið tvö stig með sér þangað. 

„Frammistaðan var góð. Það var erfitt að koma inn í svona leik þar sem allir búast við að við vinnum með tíu og við vitum að Marokkó er með sterkt lið sem spilar af mikilli ákefð, þeir berjast alveg til loka en við mættum klárir í þennan leik,“ sagði Elvar við mbl.is. 

Marokkó var skrefinu á undan fyrstu mínúturnar en eftir það tók íslenska liðið völdin og vann að lokum öruggan sigur. „Við bjuggumst við þeim svona framarlega og það tók smá tíma finna taktinn en þegar við náðum því þá fundum við glufur á vörninni og þetta var aldrei í hættu. Ég var ánægður með sóknarleikinn.

Eina sem er hægt að setja út á er að þeir náðu að opna vörnina okkar of mikið og við náðum ekki að nýta hraðaupphlaupin og seinni bylgjuna en við verðum að skoða þetta nú þegar við mætum sterkari liðum," sagði Elvar. 

Þrjú rauð fyrir þrjú afar ljót brot

Marokkó fékk þrjú rauð spjöld í leiknum og kom það fyrsta eftir tíu mínútur þegar Mehdi Ismaili Alaoui gaf Elvar rosalegt olnbogaskot. Elvar fór af velli í kjölfarið og kom ekki aftur inn á fyrr en í seinni hálfleik. Elvar var mjög ósáttur við tilburði Marokkóa í varnarleiknum sínum. 

„Ég ætla ekki að segja að ég hafi verið vankaður en mér leið ekki vel þegar ég fór út af. Þetta voru þrjú rauð spjöld og þetta á ekki að sjást í handbolta. Þetta var bara bull. Ég fékk olnbogann í kinnbeinið og í nefið. Þetta var ekki þægilegt og þetta á ekki að sjást. Mig langaði að koma aftur inn á, mér leið vel og vildi spila svolítið þótt Óli hafi spilað mjög vel var fínt að koma inn á og koma mér aftur inn í leikinn.“

Ísland mætir Sviss, Noregi og Frakklandi í milliriðli þrjú og því gríðarlega erfiðir leikir fram undan. Verkefnið leggst vel í Elvar, en fyrsti leikur í milliriðli er gegn Sviss á miðvikudag. 

„Mjög vel, það er alltaf gaman að spila á móti svona liðum. Noregur og Frakkland eru með þeim betri í heiminum og svo er Sviss mjög gott. Þeir eru með Andy Schmid og spila mikið sjö á sex og gera það frábærlega og við verðum að mæta gríðarlega vel undirbúnir í þann leik,“ sagði Selfyssingurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert