Þetta var hættulegt og það verða afleiðingar

Ólafur Guðmundsson sækir að vörn Marokkó í kvöld.
Ólafur Guðmundsson sækir að vörn Marokkó í kvöld. AFP

„Þetta var baráttusigur og við þurftum að hafa mikið fyrir þessu. Þetta voru líkamleg átök á köflum en það var flott hjá okkur að taka sigurinn í dag og þessa tvo punkta með okkur í milliriðil,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson í samtali við mbl.is. 

Ólafur skoraði sex mörk í 31:23-sigri Íslands á Marokkó á HM í handbolta í Egyptalandi í kvöld en sigurinn gulltryggði Íslandi sæti í milliriðli og tvö stig þar.

Marokkó fékk þrjú rauð spjöld í leiknum fyrir þrjú ruddaleg brot. „Þeir fengu þrjú rauð spjöld í fyrsta leik líka og þetta er svolítið allt eða ekkert hjá þeim þegar þeir fara í þessi brot. Það er ekkert gefið og þeir lenda aftan í, fara í andlit og þetta er allt öðruvísi handbolti en maður er vanur.

Ég vil ekki segja of mikið en manni stóð ekki á sama í seinni hálfleik og þetta var hættulegt. Við vinnum allir við að spila handbolta og maður vill ekki skemma ferilinn hjá neinum með ljótum brotum þannig að manni stóð ekki á sama í seinni hálfleik.

Þetta var kannski ekki ásetningur en þeir hafa séð mótið fjara út og þetta hefur verið pirringur. Hann á aldrei séns á að stoppa Viggó og þetta var glórulaust. Hann fékk líka rautt og síðan blátt spjald og fær væntanlega eitthvað leikbann og það verða afleiðingar,“ sagði Ólafur um varnartilburði Marokkó. 

Átti ekki von á svona stórum götum

Marokkó komst í 5:4 snemma leiks en eftir það náði íslenska liðið undirtökunum og sleppti þeim aldrei. „Þeir spila mikið maður á mann í vörninni og það tók okkur smá tíma að finna glufurnar og hvar við vildum ráðast á þá. Það gekk illa í byrjun leiks en þegar leið á fundum við lausnir. Við höldum þeim líka í tíu mörkum í fyrri hálfleik, svo þetta var flottur varnarleikur líka. Við þurfum aðeins að laga að vinna boltann í hættulegum stöðum og ráðast á þá. Við verðum að gera það betur.“

Ólafur skoraði sex mörk í leiknum og voru nokkur þeirra eftir að íslenska liðið sundurspilaði vörn Marokkó og eftirleikurinn auðveldur fyrir Ólaf. „Við horfum á myndbönd af þeim til að finna glufur en ég átti kannski ekki alveg von á svona rosalega stórum götum, nánast í miðri vörninni hjá þeim. Við héldum bara áfram þegar þetta virkaði nokkrum sinnum í röð og höfðum þetta einfalt. Þegar við fáum svona færi verðum við að nýta þau og við gerðum það.“

Ísland leikur næst í milliriðli 3 og mætir þar Sviss, Frakklandi og Noregi. „Nú er komið aðeins meira líf í þetta. Þetta eru þrír hörkuleikir og við getum unnið hvaða lið sem er. Þetta verður spennandi og við byrjum að undirbúa okkur á morgun,“ sagði Ólafur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert