Þriðja þjóðin dregur sig úr keppni á HM

Grænhöfðaeyjar leika ekki fleiri leiki á HM í handbolta.
Grænhöfðaeyjar leika ekki fleiri leiki á HM í handbolta. AFP

Grænhöfðaeyjar hafa dregið sig úr keppni á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem fram fer í Egyptalandi vegna kórónuveirunnar.

Þetta staðfesti IFH, Alþjóða handknattleikssambandið, á heimasíðu sinni í dag en hópsmit kom upp hjá liðinu í aðdraganda mótsins.

Liðið ferðaðist til Egyptalands og tapaði sínum fyrsta leik á mótinu, 34:27, gegn Ungverjalandi í A-riðli keppninnar á föstudaginn.

Grænhöfðaeyjar áttu að mæta Þýskalandi í gær en Þýskalandi var úrskurðaður sigur í leiknum þar sem Grænhöfðaeyjum tókst ekki að tefla fram tíu leikmönnum á skýrslu. Níu leikmenn voru tilbúnir en þrettán voru úr  leik vegna smita.

Grænhöfðaeyjar áttu að mæta Úrúgvæ á morgun en verður Úrúgvæ úrskurðaður sigur þar sem Grænhöfðaeyjar hafa nú dregið sig úr keppni. Þar með er Úrúgvæ komið áfram í milliriðla mótsins.

Grænhöfðaeyjar eru þriðja liðið sem dregur sig úr keppni á mótinu vegna kórónuveirufaraldursins en Tékkland og Bandaríkin þurfti að draga sig úr keppni í aðdraganda mótsins. 

mbl.is