Fjórir íslenskir þjálfarar á hliðarlínunni í milliriðlunum

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska landsliðinu eru komnir …
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska landsliðinu eru komnir áfram í milliriðla á HM. AFP

Ísland mun eiga fjóra fulltrúa á hliðarlínunni í milliriðlum á HM karla í handbolta í Egyptalandi eftir að lærisveinar Dags Sigurðssonar í Japan fögnuðu 30:29-sigri á Angóla og lærisveinar Halldórs Jóhanns Sigfússonar í Barein unnu 34:27-sigur á Kongó í lokaumferð riðlakeppninnar í gær. Jin Watanabe var markahæstur hjá Japan með sjö mörk og Husain Alsayyad var drjúgur fyrir Barein með níu mörk.

Verða báðar þjóðir í fyrsta skipti í milliriðli á HM. Bæði lið fara í milliriðil 2 og mætast mánudaginn 25. janúar í lokaumferð milliriðlanna. Barein mætir auk þess Króatíu og Katar í riðlinum á meðan Japan mætir Argentínu og Danmörku. Japan og Barein taka ekki með sér stig í milliriðilinn. Besti árangur Japana á HM til þessa kom árið 1970 er liðið varð í 10. sæti. Barein hefur aðeins þrisvar áður tekið þátt á lokamóti HM og kom besti árangurinn fyrir tveimur árum er liðið endaði í 20. sæti undir stjórn Arons Kristjánssonar.

Fyrsta tap Alfreðs

Áður hafði Þýskaland undir stjórn Alfreðs Gíslasonar tryggt sér sæti í milliriðlum og þá þjálfar Guðmundur Guðmundsson íslenska landsliðið. Alfreð tapaði sínum fyrsta leik sem þjálfari þýska liðsins er það mætti Ungverjalandi í spennandi leik en lokatölur urðu 29:28, Ungverjum í vil. Mate Lekai tryggði Ungverjum sigurinn og toppsæti A-riðils með sigurmarkinu á lokasekúndunum. Marcel Schiller var markahæstur í þýska liðinu með sjö mörk en þeir Bence Banhidi og Dominik Mathe gerðu átta mörk hvor fyrir Ungverja.

Ungverjaland fer með fjögur stig í milliriðil 1 og Þýskaland tvö. Þar mæta þjóðirnar Spánverjum, Pólverjum og Brasilíumönnum.

Greinina má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert