Hugarfarið háir svissneska liðinu kannski einna mest

Guðmundur Þórður Guðmundsson og íslenska karlalandsliðið hefja leik í milliriðli …
Guðmundur Þórður Guðmundsson og íslenska karlalandsliðið hefja leik í milliriðli á HM í dag þegar liðið mætir Sviss. AFP

Það eru fáir sem þekkja svissneskan handbolta betur en Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari meistaraliðs Kadetten í Sviss, en hann hefur stýrt liðinu frá því í febrúar 2020.

Ísland mætir Sviss í fyrsta leik sínum í milliriðli 3 á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í borginni 6. október í dag en Ísland er með 2 stig í riðlinum en Sviss er án stiga.

Sviss hefur komið á óvart á mótinu en liðið fékk óvænt sæti á HM, degi fyrir fyrsta leik, eftir að Bandaríkin þurftu að draga sig úr keppni vegna fjölda kórónuveirusmita í herbúðum liðsins.

„Þetta verður áhugaverð rimma,“ sagði Aðalsteinn í samtali við Morgunblaðið.

„Svissararnir eru með góða leikmenn og koma óvænt og algjörlega pressulausir inn í mótið. Þeir eru mjög vel undirbúnir og það eru fá landslið sem æfa jafn vel og svissneska landsliðið. Það er oft gert hlé á deildarkeppninni hérna í Sviss, og oftar en gengur og gerist annars staðar í Evrópu, til þess eins að landsliðið fái meiri tíma þess að vinna saman.

Það hefur ákveðinn uppgangur átt sér stað í landinu og eins hafa margir leikmenn héðan verið að feta sig áfram í þýsku Bundesligunni. Þeir eru með mjög góða leikmenn eins og Andy Schmid sem er enn þá í fullu fjöri með Rhein-Neckar Löwen þrátt fyrir að vera orðinn 37 ára gamall.

Alen Milosevic, sem leikur með Leipzig, er frábær sóknarlínumaður og Lenny Rubin, leikmaður Wetzlar, er einnig mjög öflugur. Roman Sidorowicz er einnig mjög hættulegur gegnumbrotsmaður og þessir leikmenn vita út á hvað þetta gengur.

Það er helst hægra megin þar sem þeir eru í vandræðum og þunnskipaðir en heilt yfir eru þeir með hörkuleikmenn og þeirra styrkleiki er gott skipulag. Þeir spila mikið 7 gegn 6 þegar svo ber undir og þetta er kannski ekkert ósvipað lið og Portúgal, þótt Sviss sé kannski ekki alveg með sömu breiddina og Portúgalarnir,“ bætti Aðalsteinn við en sjö leikmenn hans félags, Kadetten Schaffhausen, eru í svissneska hópnum í Egyptalandi.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »