Hulin ráðgáta sem við verðum að leysa

Björgvin Páll Gústavsson ver glæsilega í dag.
Björgvin Páll Gústavsson ver glæsilega í dag. AFP

„Þetta var helvíti langt og erfitt,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson markvörður íslenska landsliðsins í handbolta í samtali við mbl.is eftir 18:20-tap fyrir Sviss á HM í handbolta í dag. Leikurinn var sá fyrsti af þremur í millriðli.

„Markmið Svisslendinganna var að stjórna leiknum, drepa hann niður og taka tempóið úr honum og það tókst hjá þeim. Þeir eru með rosalega klóka leikmenn eins og Andy Schmid sem gerðu það vel,“ sagði Björgvin sem var ánægður með varnarleikinn en ósáttur við sóknarleikinn. 

„Mér fannst við spila varnarleikinn óaðfinnanlega í 60 mínútur, það er það jákvæða sem við tökum úr þessu, en sóknarleikurinn að sama skapi var ekki góður. Við hefðum átt að nýta varnarleikinn betur til að ná hraðaupphlaupum en við náðum því ekki í dag. Þetta var erfitt og langt kvöld.

Við náðum að skapa færi í sókninni en svo klúðruðum við dauðafærum og þá fór sjálfstraustið úr mönnum og þá er þetta erfitt. Þrátt fyrir það erum við í leiknum allan tímann. Við náðu að halda haus þrátt fyrir allt og það er ekkert auðvelt.“

Sorglegt að fá ekkert

Ísland komst í 17:16 þegar fimm mínútur voru til leiksloka en Svisslendingar voru sterkari í blálokin. „Úr því sem komið var er þetta rosalega leiðinlegt. Við vorum komnir í góða stöðu og að ákveðnu leyti þróaðist leikurinn eins og við vildum. Við vildum stjórna leiknum með vörninni og ef við hefðum fengið 1-2 hraðaupphlaup þá hefði þetta getað farið allt öðruvísi. Það er sorglegt að fá ekkert út úr þessum leik þegar við vorum þannig séð komnir með hann í okkar hendur.“

Þrátt fyrir góða markvörslu og varnarleik skoraði íslenska liðið ekki eitt einasta mark úr hraðaupphlaupi í dag. 

„Það er ráðgáta sem við verðum að leysa. Við erum að spila góða og aggresíva vörn en við eigum í erfiðleikum með að ná hraðaupphlaupum á fyrsta tempói. Við náum þeim þegar hin liðin spila sjö á sex, en það er erfitt að hraðaupphlaupum og spila aggresíva vörn en við eigum samt að geta keyrt á þá. Við verðum að leggjast yfiur þetta n úna því ef við fáum ekki ódýr mörk á móti Frökkum verður það mjög löng kvöldstund. 

Björgvin Páll Gústavsson í markinu í dag.
Björgvin Páll Gústavsson í markinu í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert