Slakur sóknarleikur varð Íslandi að falli

Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að vörn Svisslendinga í leiknum í …
Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að vörn Svisslendinga í leiknum í dag. AFP

Ísland tapaði í dag fyrir Sviss í fyrsta leik í milliriðli á HM karla í handbolta í Egyptalandi, 20:18. Hræðilegur sóknarleikur varð íslenska liðinu að falli, eins og lokatölurnar gefa til kynna.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleiknum og var staðan eftir hann 10:9, Sviss í vil. Ísland komst einu sinni yfir í hálfleiknum, 4:3, en þess fyrir utan var Sviss yfirleitt skrefinu á undan.

Eins og hálfleikstölurnar gefa til kynna voru varnir beggja liða betri en sóknirnar. Íslandi gekk heilt yfir illa í uppstilltum sóknarleik og tapaði boltanum nokkrum sinnum og fór illa með nokkur dauðafæri.

Sem betur fer gekk varnarleikurinn vel hinum megin og Björgvin Páll Gústavsson kom flottur inn í markið um miðjan hálfleikinn eftir að Ágúst Elí Björgvinsson hafði byrjað. Í stöðunni 7:5 fyrir Sviss skoraði Björgvin tvö mörk í röð yfir allan völlinn en Sviss spilaði mikið sjö á sex.

Arnar Freyr Arnarsson fékk tvær brottvísanir snemma leiks og fékk Elliði Snær Viðarsson að spila meira sem hann gerði mjög vel í vörn, þótt hann hafi ekki náð sér á strik í sókninni.

Sagan var svipuð framan af í fyrri hálfleik. Sviss skrefinu á undan, sóknarleikur Íslands ekki sérstaklega góður, Nikola Portner erfiður í markinu og vörnin hinum megin að standa sig vel. Leikurinn var enn jafn og staðan 14:14 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður.

Viggó Kristjánsson kom Ísland í 15:14 úr víti í næstu sókn og var það í fyrsta skipti síðan í stöðunni 4:3 sem Ísland var með forystu. Sviss svaraði með að komast aftur yfir, 16:15 og þannig var staðan þegar sjö mínútur voru til leiksloka.

Sviss komst síðan í 19:17 þegar tvær mínútur voru til leiksloka og tókst Íslandi ekki að jafna eftir það þar sem Ísland skoraði aðeins eitt mark á síðustu fimm mínútunum. Ísland mætir Frakklandi á föstudaginn kemur í öðrum leik í milliriðli.

Sviss 20:18 Ísland opna loka
60. mín. Andy Schmid (Sviss) skoraði mark Fer langt með að tryggja svissneskan sigur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert