Þetta er rosalega súrt

Oddur Gretarsson, þriðji frá vinstri, í leikslok.
Oddur Gretarsson, þriðji frá vinstri, í leikslok. AFP

„Það er mjög súrt að hafa tapað þessu. Við vorum ekki nægilega klókir í sóknarleiknum,“ sagði svekktur Oddur Gretarsson vinstri hornamaður íslenska landsliðsins í handbolta eftir 18:20-tap fyrir Sviss í fyrsta leik í milliriðli á HM í handbolta í Egyptalandi. 

Varnarleikur Íslands var góður í dag en eins og aðeins 18 mörk skoruð gefa til kynna var sóknin ekki góð. „Það jákvæða í þessum leik var góð vörn og flott markvarsla og það er súrt að ná ekki að fylgja eftir með hraðaupphlaupum og góðum sóknum og því fór sem fór.

Það er erfitt að segja strax eftir leik (hvað var að klikka í sókninni) en við ætluðum okkur að nýta hraðann betur og keyra á þá en það tókst ekki. Við töpuðum svo boltanum of oft. Þeir eru heldur engir nýliðar í vörninni og margir þeirra að spila í þýsku deildinni. Þeir eru með sterka vörn og við náðum ekki að leysa hana nægilega vel í dag.“

Viggó Kristjánsson kom Íslandi í 17:16 þegar fimm mínútur voru til leiksloka en Svisslendingar voru sterkari á lokamínútunum. „Við vorum í fínni stöðu og vorum tveimur fleiri á tímabili með fannst meðbyrinn vera með okkur þegar við komumst í 17:16 en því miður náðum við ekki að fylgja því eftir og þetta er rosalega súrt.“

Ísland mætir Frakklandi á föstudaginn kemur og Noreg í lokaleik milliriðilsins á sunnudag. Ísland verður að vinna báða leikina og treysta á önnur úrslit til að fara í átta liða úrslitin.

„Möguleikarnir eru minni núna en það þýðir ekki að hætta. Við sleikjum sárin í kvöld en svo mætum við klárir á æfingu á morgun og förum vel yfir Frakkana. Við stefnum áfram á að fara í átta liða,“ sagði Oddur. 

Svisslendingar fögnuðu sigri.
Svisslendingar fögnuðu sigri. AFP
mbl.is