Bæði lið í uppbyggingarferli

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik mætir Frökkum á HM í Egyptalandi …
Íslenska karlalandsliðið í handknattleik mætir Frökkum á HM í Egyptalandi síðar í dag. AFP

Íslenska landsliðið mætir Frakklandi á HM karla í handknattleik í Egyptalandi í dag klukkan 17 í milliriðli 3. Frakkland er í efsta sæti í milliriðlinum með 6 stig og því ljóst að verkefnið verður erfitt hjá íslenska liðinu sem er með 2 stig. Tækist Íslandi að leggja bæði Frakkland og Noreg að velli er enn þá fræðilega mögulegt að komast áfram en þá þyrftu úrslit í mörgum öðrum leikjum að vera Íslendingum hagstæð.

Lið Íslands og Frakklands eiga sameiginlegt að vera í uppbyggingu eftir að leikmenn sem unnið hafa til verðlauna á stórmótum eru sestir í helgan stein. Árangur liðanna verður auðvitað ekki lagður að jöfnu enda unnu Frakkar hvert stórmótið á fætur öðru. Endurnýjunin hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel hjá Frökkum. Þeir unnu þó til bronsverðlauna á HM fyrir tveimur árum en á EM í fyrra komust þeir hins vegar ekki áfram úr riðlakeppninni. Þá tapaði liðið fyrir Portúgal eins og Ísland gerði nú á HM. Þar af leiðandi er svolítið erfitt að átta sig á styrk franska liðsins þótt liðið sé sigurstranglegra liðið gegn Íslandi.

Frakkar unnu Norðmenn í fyrsta leiknum í keppninni sem er augljóst styrkleikamerki en í fyrsta leiknum í milliriðli lentu þeir í basli gegn Alsír, liði sem Ísland vann stórsigur gegn.

Alexander ekki meira með

Þau tíðindi bárust úr herbúðum íslenska liðsins í gær að Alexander Petersson yrði ekki meira með í keppninni og væri á leið til Þýskalands frá Egyptalandi af persónulegum ástæðum. Þar af leiðandi má reikna með því að Ómar Ingi Magnússon komi aftur inn í hópinn í dag.

Fyrirliðinn Arnór Þór Gunnarsson var á skýrslu gegn Sviss en kom ekkert við sögu. Á vefnum Akureyri.net kemur fram hjá Skapta Hallgrímssyni, fyrrverandi blaðamanni á íþróttadeild Morgunblaðsins, að Arnór hafi orðið fyrir meiðslum í læri í leiknum gegn Marokkó. Að upphitun lokinni fyrir leikinn gegn Sviss hafi verið ljóst að hann væri ekki leikfær.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »