Danir í átta liða úrslit

Mathias Gidsel skorar eitt marka sinna í leiknum við Japani …
Mathias Gidsel skorar eitt marka sinna í leiknum við Japani í kvöld. AFP

Danmörk er komin í átta liða úrslit eftir 34:27 sigur gegn lærisveinum Dags Sigurðssonar í Japan í milliriðli tvö á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Egyptalandi.

Strax í upphafi leiks varð það ljóst að Japanir hygðust ekki gefa Dönum þumlung eftir og komust nokkrum sinnum einu marki yfir í upphafi leiks. Danir tóku þó stjórnina hægt og bítandi og komust mest þremur mörkum yfir í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 19:17, Dönum í vil.

Danir byrjuðu síðari hálfleikinn á sterkum nótum og náðu fljótt fjögurra marka forystu. Japanir gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í tvö mörk en líkt og í fyrri hálfleiknum tóku Danir aftur stjórnina og juku forystuna jafnt og þétt. Kláruðu þeir svo leikinn með flottum sjö marka sigri, 34:27.

Danmörk er þar með búin að vinna milliriðil tvö.

Þægilegt hjá Þjóðverjum

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi unnu góðan 31:24 sigur gegn Brasilíu í milliriðli eitt.

Leikurinn skipti ekki máli eftir að Ungverjar unnu Pólverja fyrr í dag í riðlinum og tryggðu þar með sér og Spánverjum sæti í átta liða úrslitum keppninnar.

Eftir að Brasilíumenn skoruðu fyrsta mark leiksins voru Þjóðverjar allan tímann með forystuna og komust mest  fimm mörkum yfir í fyrri hálfleiknum. Var staðan í hálfleik 16:12 fyrir Þýskaland.

Brasilíumenn reyndu áfram að láta að sér kveða en forysta Þjóðverja varð aldrei minni en þrjú mörk og varð mest sjö mörk í síðari hálfleiknum. Vann Þýskaland að lokum þægilegan 31:24 sigur.

Alfreð Gíslason lifir sig inn í leik Þýskalands og Brasilíu …
Alfreð Gíslason lifir sig inn í leik Þýskalands og Brasilíu í kvöld. AFP
mbl.is