Eins og heitt og kalt

Gísli Þorgeir Kristjánsson átti góðan leik í dag.
Gísli Þorgeir Kristjánsson átti góðan leik í dag. AFP

„Þetta var flottur leikur í dag,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson í samtali við mbl.is um 33:35-tapið gegn Noregi á HM í Egyptalandi í dag. Leikurinn var sá síðasti hjá íslenska liðinu á mótinu. 

„Sóknarleikurinn var flottur, við vorum hreyfanlegir og flæðið var gott. Við vorum að vinna barátturnar og fengum færi í hverri einustu sókn. Það voru líka allir að koma að mörkunum okkar, þetta voru ekki bara einhverjir tveir,“ sagði Gísli, en Ísland hefur tapað síðustu þremur leikjum með tveggja marka mun. 

„Það er leiðinlegt að þetta fari enn og aftur svona. Eina sem við vorum að klikka á í dag voru færin okkar. Þú mátt ekki fara illa með færin á móti Noregi því í staðinn fyrir að jafna getur þú lent tveimur mörkum undir eins og í dag,“ sagði hann. 

Þrátt fyrir fjögur töp og tvo sigra á mótinu segir Gísli íslenska liðið vera á réttri leið. „Við erum allir að taka skref í rétta áttina. Ef við lítum á leikinn á móti þeim á EM fyrir ári síðan þá var það eins og heitt og kalt. Mér finnst við hafa verið að spila ótrúlega vel þótt vörnin hafi ekki verið upp á sitt besta í dag, þá höfum við spilað frábæra vörn allt mótið.

Við höfum allir tekið skref upp á við og þótt við höfum tapað þessum leikjum á móti þessum stóru liðum höfum við spilað vel. Við höfum sýnt að við getum unnið þessi lið og ég er sannfærður um að við náum því á næsta móti,“ sagði Gísli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert