Er jafntefli betra fyrir Norðmenn en sigur gegn Íslandi?

Sander Sagosen og félagar í norska landsliðinu mæta Íslendingum í …
Sander Sagosen og félagar í norska landsliðinu mæta Íslendingum í dag. AFP

Norskir fjölmiðlar velta vöngum yfir því hvort Norðmenn freisti þess að gera jafntefli við Íslendinga í lokaumferð milliriðlakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik í Egyptalandi í dag, frekar en að vinna leikinn.

Fyrir lokaleiki milliriðils 3 er Frakkland með bestu stöðuna, 8 stig, Noregur er með 6 stig og Portúgal 6. Tvö efstu liðin komast áfram í milliriðil.

Innbyrðis úrslit ráða ef lið eru jöfn að stigum og þar sem Norðmenn unnu Portúgal fara þeir áfram ef liðin enda jöfn, bæði með 6 stig eða bæði með 7 stig. Norðmenn myndu því sleppa áfram með tapi eða jafntefli gegn Íslandi, ef Portúgal myndi tapa eða gera jafntefli við Frakkland.

TV2 í Noregi vekur athygli á því að ef Noregur vinni Ísland, þá nægi Portúgal að vinna Frakkland með einu marki til að fara áfram með Frökkum. Þá yrðu liðin þrjú öll með 8 stig og með jafnar innbyrðis viðureignir þar sem markatala Norðmanna yrði lökust, nema Portúgal ynni með sjö mörkum. Þá sætu Frakkar eftir.

Þar með óttast Norðmenn að Frakkar gætu verið sáttir með eins til tveggja marka tap gegn Portúgölum því þeir myndu samt vinna riðilinn.

Möguleikarnir gætu því verið mestir fyrir Norðmenn að gera jafntefli við Ísland og vera með 7 stig, vegna þess að það myndi setja mikla pressu á Frakka að fá að minnsta kosti eitt stig úr leiknum gegn Portúgal til að tryggja sér efsta sæti í riðlinum og fá hagstæðari mótherja í átta liða úrslitunum. Annars gæti Portúgal tekið efsta sætið af Frökkum með sigri.

„Já, þetta gæti vissulega verið betra. En það þarf að hafa mikla trú á samsæriskenningum til að sjá fyrir sér að þetta yrði skipulagt svona,“ segir Bent Svele, handboltasérfræðingur TV2, aðspurður um þessa sérstöku stöðu.

„Haldið þið að norski þjálfarinn fari að leggja upp fyrir sína menn að gera jafntefli þegar 30 sekúndur eru eftir af leiknum? Nei, ég ef enga trú á að Christian Berge hugsi þannig. Ég er viss um að norska liðið leggur allt í sölurnar til að vinna Ísland,“ segir Svele.

Leikur Íslands og Noregs hefst klukkan 17 í dag en leikur Portúgals og Frakklands klukkan 19.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert