Gaman að það sé verið að að búa til fyrirsagnir

Elliði Snær Viðarsson stendur í ströngu í dag.
Elliði Snær Viðarsson stendur í ströngu í dag. AFP

Elliði Snær Viðarsson var áberandi í 33:35-tapi gegn Noregi í síðasta leik Íslands á HM í handbolta í kvöld. Þrátt fyrir tapið var Elliði sáttur við margt í leik Íslands. 

„Leikurinn var þannig séð fínn. Þetta var jafnt allan tímann og hefði getað dottið báðum megin en ég hefði viljað fá færri mörk á okkur og vera þéttari í vörninni en sóknarleikurinn var í góðu lagi. Við náum þessu á næsta móti og verðum í toppmálum,“ sagði Elliði. 

Ísland lék mjög fínan sóknarleik í dag, en varnarleikurinn var ekki eins sterkur, eins og 35 mörk fengin á sig gefa til kynna. 

„Þeir eru drullugóðir og við lentum svolítið á eftir þeim þegar þeir voru búnir með 2-3 stimplingar og þá náðu þeir að sprengja vörnina. Við vorum þunnskipaðir í dag; Elvar datt út í upphitun, Viggó og Arnór voru út og því gátum við ekki skipt. Það var kannski einhver þreyta í vörninni en við notum það ekki sem afsökun.“

Elliði Snær lætur finna fyrir sér.
Elliði Snær lætur finna fyrir sér. AFP

Ísland vann aðeins tvo leiki á mótinu og tapaði öllum fjórum leikjum sínum gegn Evrópuþjóðum, en þrátt fyrir það var Elliði brattur. „Ég hef þannig séð engar áhyggjur. Þetta hefði getað dottið báðum megin í öllum leikjunum. Á næsta móti þá vinnum við þá alla, er það ekki?“

Kunnugur staðháttum á rauðaspjaldsbekknum

Mótið var það fyrsta hjá Elliða með A-landsliðinu og hann komst mjög vel frá sínu. „Þetta er ótrúlega skemmtilegt en maður fær það samt smá á tilfinninguna eins og þetta sé yngriflokkamót því það vantar áhorfendurna. Þetta hefur samt verið ótrúlega gaman og fer beint í reynslubankann. Það verður gaman að takast á við fleiri svona verkefni.“

Elliði skoraði fjögur mörk í leiknum en fékk einnig sitt annað rauða spjald. Eyjamaðurinn var léttur í lund þegar talið barst að þeim. „Ég fæ kannski aðeins færri rauð spjöld næst, þá verð ég í fínum málum. Það er frekar leiðinlegt að vera orðinn kunnugur staðháttum á rauðaspjaldsbekknum.“

Landsliðsmaðurinn Guðmundur Guðmundsson greindi tilfinningaríkur frá því á dögunum að gagnrýnin sem íslenska liðið hefði fengið á mótinu væri ósanngjörn og að ummæli sérfræðinga RÚV hefðu áhrif á sig og leikmenn. 

„Við reynum að pæla lítið í því sem hann segir í viðtölum og það sem aðrir segja. Þetta hefur lítil áhrif á hópinn sem er frekar góður og þéttur. Það er gaman að það sé verið að reyna að búa til fyrirsagnir um landsliðið og við verðum að taka því, sama hvort það sé jákvætt eða neikvætt.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert