Hraðari handbolti eftir reglubreytingar?

Mikkel Hansen skorar fyrir Danmörku gegn Katar á HM. Hann …
Mikkel Hansen skorar fyrir Danmörku gegn Katar á HM. Hann sér ný tækifæri í nýju reglunum. AFP

Þrjár nýjar reglubreytingar eru í bígerð í handboltanum, tvær þeirra eiga að stuðla að hraðari leik og ein snýr að skotum í höfuð, og er allt fer samkvæmt áætlun taka þær gildi sumarið 2022.

Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, hefur að undanförnu fengið deildir í nokkrum löndum, m.a. í Suður-Kóreu, Katar og Hollandi, til að spila eftir þessum reglum til að fá reynslu af því hvort og hvernig þær virka.

1 – Þegar dómari réttir upp hönd til að gefa til kynna að leiktöf sé yfirvofandi á sóknarliðið fækkar sendingum sem það hefur úr sex í fjórar. Þá mun það teljast sending þegar skotið er í varnarmann.

2 – Ekki skal lengur gefið rautt spjald fyrir að skjóta beint í höfuð markvarðar úr vítakasti eða í höfuð varnarmanns í aukakasti. Í staðinn skal alltaf reka leikmann af velli í tvær mínútur þegar hann skýtur í höfuð markvarðar úr óhindruðu skoti (ef ekki er brotið á honum í leiðinni), hvort sem það er úr vítakasti, aukakasti, úr horni eða hraðaupphlaupi.

3 – Ekki þarf lengur að hefja leik eftir mark á nákvæmlega miðjum vellinum. Upphafskastið eftir mark má í staðinn taka hvar sem er í miðjuhring sem verður á bilinu 3,5 til 4,5 metrar í þvermál. Um leið má taka kastið á hlaupum. Enginn mótherji má vera í umræddum hring þegar upphafskastið er tekið.

Fjallað er um þessar breytingar hjá TV2 í Danmörku og þar segir Bent Nyegaard handboltasérfræðingur, þjálfari Fram og ÍR á árum áður, að sú síðastnefnda muni gera liðum sem leika sjö gegn sex í sóknarleiknum, þ.e. með markvörðinn utan vallar, erfiðara fyrir en áður. Þau hafi minni tíma til að skipta útispilara út fyrir markvörð þegar mark hefur verið skorað.

Nicolai Jörgensen landsliðsþjálfari Dana fagnar breytingunum og segir að þær muni stuðla að hraðari handbolta. Línumenn þurfi með þessum breytingum að vera í betra líkamlegu formi og fljótir leikmenn muni græða mest á þeim. 

Svo leiðinlegt að ég er að sofna

Jörgensen segir að handboltinn sé alltof hægur í dag, geti hreinlega verið leiðinlegur, og því verði að breyta.

„Í dag geturðu hlaupið fram og „önnur bylgjan“ varir í allt að 20 sekúndur áður en þú skiptir út tveimur leikmönnum, mátt henda boltanum fram og til baka, hornamennirnir hlaupa tvisvar í kerfi og svo er skipt yfir í annað kerfi án þess að dómarinn sé farinn að lyfta hendinni til marks um leiktöf. Þegar þarna er komið sögu er ég alveg að sofna, þetta er svo leiðinlegt!“ segir Jörgensen við TV2.

Mikkel Hansen, aðalskytta Dana, segir að breytingin á upphafskastinu eftir mark gefi áhugaverða möguleika varðandi að koma sér sem fyrst í stöðu til að skjóta á mark eftir miðjuna. Það verði gott mótvægi við það að reglan muni væntanlega verða til þess að sóknarleikur með sjö gegn sex verði ekki lengur fýsilegur kostur.

Ramon Gallego, formaður dómaranefndar IHF, segir við TV2 að breytingarnar verði lagðar fyrir næsta þing IHF, í október á þessu ári, og verði þær samþykktar muni þær taka gildi frá og með sumrinu 2022.

mbl.is