Vildum skemma fyrir Norðmönnum

Kristján Örn Kristjánsson lætur vaða að marki Norðmanna í dag.
Kristján Örn Kristjánsson lætur vaða að marki Norðmanna í dag. AFP

„Þetta var geggjaður leikur,“ sagði Kristján Örn Kristjánsson í samtali við mbl.is eftir 33:35-tap fyrir Norðmönnum í lokaleik Íslands á HM í handbolta í Egyptalandi. Þrátt fyrir tapið lék íslenska liðið nokkuð vel í leiknum og hefði með smá heppni getað náð að minnsta kosti jafntefli. 

„Karakterinn í liðinu var mjög góður. Við vissum að við værum úr leik en það var geggjað að sjá hvernig við gáfum allt sem við áttum í þetta. Sóknarleikurinn okkar var mjög fínn en vörnin okkar var ekkert spes. Þeir eru mjög þungir og sterkir. Við reyndum hvað við gátum að gera þeim erfitt fyrir,“ sagði hann. 

Þrátt fyrir að Ísland væri úr leik áður en flautað var til leiks í dag segir Kristján að liðið hafi verið staðráðið í að reyna að skemma fyrir Norðmönnum sem voru að berjast um sæti í átta liða úrslitum. 

„Það sem var að drífa okkur áfram var að við gátum skemmt mótið hjá Noregi. Við vildum gera eitthvað af viti þótt það væri ekki nema það. Annars spiluðum við eins og við höfum alltaf spilað. Við gáfum líf og sál í hverja einustu sókn og hverja einustu vörn. Því miður höfum við tapað öllum leikjunum í milliriðli með tveimur mörkum þar sem þetta hefur verið stöngin út. Það fer allt í reynslubankann.

Kristján Örn Kristjánsson í háloftunum í dag.
Kristján Örn Kristjánsson í háloftunum í dag. AFP

Vörnin var helvíti góð á móti Sviss þar sem við fáum bara 20 mörk á okkur. Sóknarleikurinn var hins vegar ekki til staðar þá. Sóknin var mjög góð í dag en vörnin ekkert spes. Við lærum af þessum leikjum og skoðum hvað við erum að gera vitlaust.“

Naut þess að spila á sínu fyrsta stórmóti

Kristján var að leika á sínu fyrsta stórmóti og þrátt fyrir takmarkaðan spilatíma naut hann þess að leika á heimsmeistaramóti með A-landsliðinu. „Þetta hefur verið geggjað og það er geggjað að fá að vera með þessum strákum. Þótt ég hafi bara spilað í 15-20 mínútur þá reyndi ég eins og ég gat á þeim tíma sem ég fékk. Ég reyndi að sýna mitt besta þótt það hafi ekki alveg dottið inn hjá mér í dag. Við vorum ekki að spila á móti neinum klaufum, svo ég fer ekki reiður á koddann í kvöld.“

Kristján fékk tækifæri í byrjunarliðinu í fyrsta skipti í dag og skoraði eitt mark. Hann var hins vegar tekinn af velli eftir að hafa brennt af 2-3 færum og settist hann niður með Guðmundi Guðmundssyni landsliðsþjálfara og ræddu þeir málin.

„Í stuttu máli var hann bara að segja mér að skjóta betur og setja hann þar sem markvörðurinn er ekki og í klofið á þeim. Skotin sem ég tók þegar við vorum í undirtölu, að velja þau betur. Hann var að hvetja mig áfram í þessum leik. Ég reyndi mitt besta,“ sagði Kristján Örn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert