Egyptar fá góðan stuðning á áhorfendalausu móti (myndskeið)

Egyptar fagna eftir að hafa tryggt sér sæti í átta …
Egyptar fagna eftir að hafa tryggt sér sæti í átta liða úrslitunum á HM. AFP

Danir velta því fyrir sér hvort of margir séu til staðar í handknattleikshöllinni í Kaíró þegar heimamenn, Egyptar, spila á heimsmeistaramóti karla þessa dagana.

Danir mæta einmitt Egyptum í átta liða úrslitum mótsins á miðvikudaginn og TV2 fjallar talsvert um áhorfendamálin á leikjum heimamanna, en rétt áður en mótið hófst ákvað Alþjóðahandknattleikssambandið að engir áhorfendur yrðu á leikjum þess vegna smithættu af völdum kórónuveirunnar.

Strax á fyrsta leik birtust myndir af nokkrum fjölda fólks sem fylgdist með heimaliðinu spila úr áhorfendapöllum hallarinnar og TV2 segir að margir hafi verið í höllinni í gær þegar Egyptar og Slóvenar skildu jafnir, 25:25, í lokaumferð milliriðlakeppninnar en með þeim úrslitum tryggðu Egyptar sér sæti í átta liða úrslitum.

TV2 bendir á að talsvert hafi verið um hvatningarhróp frá áhorfendastúkunum á meðan leikurinn stóð yfir en það þýði ekki endilega að áhorfendum hafi verið hleypt inn. Þar geti verið um að ræða fólk sem sé skráð sem sjálfboðaliðar á mótinu, sem og fjölmiðlafólk.

„Ég get ekki ímyndað mér annað en að það fólk sem sést á myndum úr höllinni hljóti að vera hluti af „búbblunni“ á mótinu. Allt annað væri brot á hinum ströngu reglum sem egypsku mótshaldararnir hafa fylgt eftir í hvívetna af myndarskap,“ segir Morten Henriksen íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins í viðtali við B.T.

„Það er merkilegt hversu margir eru í höllinni á meðan leikir Egypta fara fram. Svo er þetta fólk horfið þegar leikurinn hefur verið flautaður af. Ég hef mestar áhyggjur af því að þetta fólk tilheyri ekki „búbblunni“. Sé það raunin er verið að taka mikla áhættu í öryggismálunum vegna kórónuveirunnar,“ segir Thomas Kristensen, lýsandi á TV2, við vefsíðu stöðvarinnar, sem birti myndskeiðið hér fyrir neðan á twittersíðu sinni.

Þar eru birtar margar myndir af fólki að fylgjast með leikjum Egypta, sem ýmist er með grímu eða ekki. Þá hefur rússneska handknattleikssambandið birt á Twitter myndskeið sem sýnir áhugasama áhorfendur á leik þjóðanna í milliriðlinum. Það má sjá hér fyrir neðan:

mbl.is