Þriggja liða slagur um síðasta sætið

Argentína er á barmi þess að komast í átta liða …
Argentína er á barmi þess að komast í átta liða úrslit HM. AFP

Argentína gæti í dag náð sínum besta árangri í sögunni á heimsmeistaramóti karla í handknattleik, þegar liðið mætir Katar í lokaumferð milliriðils tvö í Egyptalandi.

Danmörk hefur þegar unnið riðilinn með 8 stig en Argentína er með 6, Króatía 5 og Katar 4 stig.

Argentínu nægir jafntefli til að tryggja sér annað sætið vegna sigursins óvænta á Króatíu í síðasta leik.

Katar þarf að vinna leikinn og treysta á að Króatía tapi fyrir Danmörku í lokaleik riðilsins í kvöld.

Króatía þarf að treysta á að Katar vinni Argentínu og vinna síðan Danmörku til að ná öðru sætinu og fara í átta liða úrslitin.

Ef Katar vinnur og Danmörk og Króatía skilja jöfn verða Argentína, Katar og Danmörk öll jöfn með 6 stig. Þá eru Króatar úr leik en Katar þyrfti að vinna leikinn með þriggja marka mun, annars væri Argentína komin áfram með bestu markatöluna innbyrðis úr leikjum liðanna þriggja.

Liðið sem nær öðru sætinu mætir Svíþjóð í átta liða úrslitunum á miðvikudaginn.

Besti árangur Argentínu til þessa er 12. sætið sem liðið náði á HM 2011 í Svíþjóð og aftur á  HM 2015 í Katar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert