Gríðarlegt áfall fyrir lið Katar

Danijel Saric hefur verið Katarbúum dýrmætur á HM.
Danijel Saric hefur verið Katarbúum dýrmætur á HM. AFP

Handknattleikslandslið Katar sem er komið í átta liða úrslitin á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi hefur orðið fyrir gríðarlegu áfalli.

Markvörðurinn snjalli Danijel Saric getur ekki leikið meira með liðinu á mótinu vegna meiðsla í öxl. Saric, sem er orðinn 43 ára, hefur verið í algjöru lykilhlutverki og átt nokkra stórleiki á mótinu. Saric staðfesti þetta sjálfur við TV2 í Danmörku.

Katar mætir Svíþjóð í átta liða úrslitunum annað kvöld eftir að hafa skilið Króatíu og Argentínu eftir í harðri baráttu í milliriðlakeppninni. 

Saric hefur verið leikmaður Katar frá árinu 2015 en hann varð löglegur með landsliði þjóðarinnar áður en heimsmeistaramótið fór fram í Katar það ár, þar sem liðið hreppti silfurverðlaunin. Hann var áður landsliðsmaður Serbíu og síðan Bosníu og hefur því keppt fyrir þrjár þjóðir á rúmlega 20 ára landsliðsferli. Hann er í dag með tvöfalt ríkisfang, í Bosníu og Katar.

Saric lék í sjö ár með Barcelona og áður með stórliðunum Portland San Antonio, Ademar León og Ciudad Real á Spáni en hjá síðastnefnda liðinu var hann m.a. liðsfélagi Ólafs Stefánssonar um skeið.

mbl.is