Held að ég hafi aldrei verið svona veikur

Mikkel Hansen vonast til að geta beitt sér af fullum …
Mikkel Hansen vonast til að geta beitt sér af fullum krafti gegn Egyptum á morgun. AFP

Mikkel Hansen, einn besti handboltamaður heims, kveðst hafa jafnað sig á heiftarlegri magakveisu sem hann fékk í Egyptalandi og segist vera klár í slaginn gegn heimamönnum, Egyptum, í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins annað kvöld.

Hansen missti af leiknum gegn Króötum í gærkvöld en þótt danska liðið væri án hans og hefði ekki að neinu að keppa valtaði það yfir Króatana í síðari hálfleik og vann 38:26 eftir að staðan var 17:15 í hálfleik. Allt var í húfi fyrir Króata sem hefðu komist í átta liða úrslit með sigri.

„Ég hef það miklu betra og er eiginlega undrandi á hve góður ég er núna. Mér tókst loks að sofa alla nóttina. Það var góð tilbreyting að vakna við vekjaraklukku en ekki einhvers konar „innri vekjaraklukku“. Ég er því í fínu skapi núna!“ sagði Hansen í morgun þegar hann ræddi við danska fréttamenn í gegnum fjarfundabúnað.

„Ég held að ég hafi aldrei áður gengið í gegnum svona veikindi. Þetta er búin að vera brött brekka en í gær hafði ég loksins einhverja matarlyst sem var skref í rétta átt,“ sagði Hansen og kveðst hafa verið með mikla magaverki, uppköst og nokkrar svefnlitlar nætur en fleiri úr danska hópnum hafa verið slappir síðustu daga og magakveisa virðist hafa geisað hjá mörgum liðanna í Egyptalandi. Slóvenar áttu t.d. mjög erfitt með að stilla upp liði gegn Egyptum á sunnudaginn en níu leikmenn hörkuðu af sér og spiluðu veikir.

„Mér líður vel. Það er ómögulegt að átta sig á hvernig maður verður þegar í leik er komið. Ég hef fylgst með Egyptum og þeir eru á keyrslu allan leikinn. Ég verð því að finna sjálfur hvernig ég verð í leiknum og vinna út frá því,“ sagði Mikkel Hansen en leikurinn hefst kl. 16.30 á morgun.

mbl.is