Besti leikmaður heimsmeistaramótsins

Mikkel Hansen fagnar einu af mörkum sínum í úrslitaleiknum gegn …
Mikkel Hansen fagnar einu af mörkum sínum í úrslitaleiknum gegn Svíþjóð í dag. AFP

Vinstri skyttan Mikkel Hansen var valinn besti leikmaður heimsmeistaramótsins í handknattleik eftir að hann skoraði sjö mörk fyrir Dani í 26:24-sigri þeirra á Svíþjóð í úrslitaleiknum í Egyptalandi í dag. Þetta er í þriðja sinn sem Hansen vinnur þessi verðlaun.

Hansen skoraði 48 mörk á mótinu og varð fimmti markahæsti leikmaðurinn á mótinu og sá markahæsti í heimsmeistaraliði Dana. Flest mörk skoraði Frankis Marzo fyrir Katar, 58 talsins. Þá tilkynnti Alþjóðahandknattleikssambandið einnig úrvalslið mótsins þar sem Hansen er að sjálfsögðu ásamt landa sínum Mathias Gidsel en þrír leikmenn úr silfurliði Svía komust í liðið.

Úrvalsliðið
Markvörður: Andreas Palicka (Svíþjóð)
Vinstra horn: Hampus Wanne (Svíþjóð)
Vinstri skytta: Mikkel Hansen (Danmörku)
Leikstjórnandi: Jim Gottfridsson (Svíþjóð)
Hægri skytta: Mathias Gidsel (Danmörku)
Hægra horn: Ferran Solé (Spáni)
Línumaður: Ludovic Fabregas (Frakklandi)

Mikilvægasti leikmaðurinn: Mikkel Hansen

mbl.is