Sterkasti riðill mótsins?

Guðmundur Þ. Guðmundsson hefur um nóg að hugsa fyrir HM.
Guðmundur Þ. Guðmundsson hefur um nóg að hugsa fyrir HM. mbl.is/Árni Sæberg

Er Ísland í sterkasta riðlinum á heimsmeistaramóti karla í handbolta sem hefst í Svíþjóð og Póllandi á miðvikudaginn í næstu viku?

Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari telur að svo sé og það má vel færa rök fyrir því.

D-riðill mótsins er eini riðillinn af átta á mótinu þar sem þrjú sterkustu liðin hafa öll komist í hóp tíu efstu liða á annaðhvort Evrópumótinu 2022 eða heimsmeistaramótinu 2021. Það eru sem sagt Ísland, Ungverjaland og Portúgal.

Fjórða liðið er síðan næstum því óskrifað blað en það er Suður-Kórea, rótgróin handboltaþjóð sem komst naumlega á HM sem fimmta lið Asíu. En Suður-Kóreumenn stóðu sig vel á alþjóðlegu móti í Póllandi milli jóla og nýárs og eru sýnd veiði en ekki gefin.

Þrjú lið af þessum fjórum komast í milliriðilinn í Gautaborg og það þarf ansi mikið að ganga á til að Ísland verði ekki eitt þeirra þriggja liða. Annað yrði hreinlega mesta áfall sögunnar í íslenskum handbolta.

En til að ná því stóra takmarki að komast í átta liða úrslitin má liðið hvergi misstíga sig. Svíþjóð, Evrópumeistari 2022 og silfurlið HM 2021, verður í milliriðlinum í Gautaborg. Svíþjóð, Ísland, Portúgal, Ungverjaland og Brasilía verða væntanlega í hörðum slag í milliriðlinum um að ná tveimur efstu sætunum. Þrjú eða fjögur stig úr tveimur fyrstu leikjunum, gegn Portúgal og Ungverjalandi, eru því lífsnauðsynleg fyrir framhaldið í keppninni.

Gjörþekkja Portúgalina

Portúgal er fyrsti mótherjinn 12. janúar. Guðmundur og Paulo Pereira, þjálfari Portúgala, gjörþekkja hvor annan eftir margar viðureignir liðanna síðustu ár, síðast á EM í Búdapest í janúar 2022 þar sem liðin mættust líka í fyrstu umferð og Ísland vann 28:24.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert