Vorum sjálfir okkur verstir í þessum leik

Guðmundur Guðmundsson var sár og svekktur í leikslok.
Guðmundur Guðmundsson var sár og svekktur í leikslok. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson var afar svekktur þegar hann ræddi við mbl.is eftir 28:30-tapið fyrir Ungverjalandi á HM í handbolta í kvöld. Ísland var mest sex mörkum yfir í seinni hálfleik, en eftir hræðilegan lokakafla voru það Ungverjar sem fögnuðu sigri.

„Við vorum þremur mörkum yfir þegar lítið var eftir og þá kemur skelfilegur kafli og ég var mjög óhress með sóknarleikinn. Boltinn fékk ekki að fljóta eins og við ætluðum okkur. Engu að síður erum við með frábæran leik í 50 mínútur eða svo.

Við vorum yfir þegar lítið var eftir og þá getum við ekki sagt að þetta hafi verið alslæmt. Þetta var stórkostlegur leikur fram að því,“ byrjaði Guðmundur og hélt svo áfram:

Guðmundur Guðmundsson fórnar höndum í kvöld.
Guðmundur Guðmundsson fórnar höndum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög óhress með að við gerum allt of mikið af tæknimistökum. Við áttum sendingar sem skila sér ekki á samherja og þeir nýta sér það. Við færum þeim þar með vænlegar stöður og gerðum þetta auðveldara fyrir þá. Vörnin gefur síðan eftir undir lokin og það koma línusendingar inn á Bánhidi.

Þegar við lokum á það kemur vinstri skyttan hjá þeim og þrumar yfir okkur. Það er sitt lítið af hverju en við vorum sjálfir okkur verstir í þessum leik. Við tókum leikhlé og reyndum. Þá komst þetta í þrjú mörk og þá hélt ég við myndum rétta úr kútnum þá, en það gerðist ekki. Við fórum illa með allt of mörg dauðafæri,“ sagði þjálfarinn.

Hann vildi ekki meina að sínir menn hafi farið að verja forskotið í seinni hálfleik, þegar staðan var orðin væn. „Það er möguleiki. Ég held samt ekki endilega. Við gáfum bara eftir.“

Guðmundur ræðir við aðstoðarmenn sína í kvöld.
Guðmundur ræðir við aðstoðarmenn sína í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert