Starfsmaður HSÍ hefur vart undan í dag

Stuðningsmenn íslenska liðsins hafa verið duglegir að klæðast fánalitunum á …
Stuðningsmenn íslenska liðsins hafa verið duglegir að klæðast fánalitunum á leikjum Íslands á stórmótunum undanfarin ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Handknattleikssamband Íslands hefur fengið nýja sendingu af landsliðstreyjum til Svíþjóðar og verða þær til sölu í Gautaborg næstu dagana þar sem fram undan eru þrír leikir hjá Íslendingum á HM karla í handknattleik.

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, staðfesti þetta þegar mbl.is tók púlsinn á honum í dag en hann er nú staddur í Gautaborg.

Íslenski leikmannahópurinn skilaði sér til Gautaborgar frá Kristianstad í dag en Elvar Örn Jónsson ferðaðist ekki með öðrum leikmönnum til að draga úr smithættu eins og kom fram á mbl.is í dag. 

Róbert Geir Gíslason og Ágúst Þór Jóhannsson á EM fyrir …
Róbert Geir Gíslason og Ágúst Þór Jóhannsson á EM fyrir ári. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Seldist upp í vélarnar sem fara á föstudag

Landsliðstreyjan seldist upp hjá HSÍ áður en boltinn fór að rúlla á HM í Svíþjóð og var þá brugðið á það ráð að panta nýja sendingu af bláu treyjunni og fá hana til Svíþjóðar.

Á föstudaginn fara þrjár vélar til Gautaborgar frá Icelandair og seldist upp í þær vélar áður en keppnin hófst. Áhuginn hefur því verið geysilega mikill og í riðlakeppninni í Kristianstad fékk íslenska liðið mikinn stuðning á áhorfendapöllunum. 

Enda fór það svo að miðar á leiki Íslands seldust upp hjá HSÍ áður en keppnin hófst og var áhugasömum þá bent á heimasíðu keppninnar.

Mbl.is ræddi við starfsmann HSÍ í morgun sem er við störf á skrifstofunni hér heima. Hafði hann vart undan að svara símhringingum frá því klukkan 8 í morgun þar sem áhugasamir handboltaunnendur vildu reyna að ná sér í miða á leiki Íslands í milliriðlinum í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert